Innlent

Skýrslan barst fjármálaráðuneytinu mánuði fyrr en Bjarni hélt fram

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði skýrsluna ekki hafa borist ráðuneytinu í endanlegri mynd fyrr en 13. október.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði skýrsluna ekki hafa borist ráðuneytinu í endanlegri mynd fyrr en 13. október. vísir/anton brink

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra fékk kynningu á skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga í aflandsfélögum þann 5. október síðastliðinn. Ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Guðmundur Árnason staðfesti þetta í samtali við fréttastofu RÚV.

Skýrslunni var skilað til fjármálaráðuneytisins þann 13. september og fékk starfshópurinn þá tilkynningu frá ráðuneytinu að störfum hópsins væri lokið. Skýrslunni var ekki breytt eftir það.

Bjarni hefur áður haldið því fram að skýrslan hafi ekki borist ráðuneytinu í endanlegri mynd fyrr en eftir þingslit, sem voru 13. október. 

Margir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt að skýrslan hafi ekki verið birt almenningi og Alþingi fyrr en eftir þingkosningar sem fram fóru í október og hefur Katrín Jakobsdóttir, formaður VG farið fram á að efnahags-og viðskiptanefnd þingsins komi saman í næstu viku til að fjalla um skýrsluna. Hún telur mörgum spurningum enn ósvarað.

Bjarni hafði áður vísað því á bug að hann hefði setið á skýrslunni.

Sjá einnig: Bjarni vísar því á bug að hann hafi setið á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum

,,Nei ég vísa því algjörlega á bug að henni hafi með einhverjum hætti verið haldið leyndri. Það er bara ekki þannig," sagði Bjarni í samtali við RÚV.

Sagði hann að hann hefði fengið skýrsluna í hendur eftir að þingi var slitið í haust og því hafi verið ákveðið að bíða fram yfir kosningar með birtingu skýrslunnar svo að ný ríkisstjórn og ný efnahags- og viðskiptanefnd gæti fjallað um efni skýrslunnar.

Ljóst er að efnahag- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði fimmtán sinnum frá 13. september og fram að þinglokum. Eftir 5. október, þegar Bjarni fékk sérstaka kynningu á skýrslunni frá formanni starfshópsins voru fundir nefndarinnar fjórir talsins. 

Nefndin hefur auk þess fundað fjórtán sinnum eftir kosningarnar í haust.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.