Innlent

Thomas Møller lýsti yfir sakleysi sínu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Thomas Moller Olsen var leiddur fyrir dómara í dag þar sem hann lýsti yfir sakleysi sínu.
Thomas Moller Olsen var leiddur fyrir dómara í dag þar sem hann lýsti yfir sakleysi sínu. Vísir/vilhelm
Thomas Møller Olsen neitaði að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Hann neitaði jafnframt stórfelldu fíkniefnalagabroti en hann er sagður hafa ætlað að smygla rúmum 23 kílóum af kannabisefnum til Grænlands í ágóðaskyni. Sömuleiðis mótmælti hann bótakröfum foreldra Birnu, sem hvort um sig fer fram á 10,5 milljónir, með vísan til þess að hann segist saklaus.

Thomas er sakaður um að hafa slegið Birnu ítrekað í andlit og höfuð, tekið hana kverkataki og hert kröftuglega að hálsi hennar í rauðri Kia Rio bifreið hinn 14. janúar síðastliðinn. Þá hafi hann í framhaldinu varpað Birnu í sjó eða vatn með þeim afleiðingum að hún drukknaði.

Birna hlaut af þessu höggáverka á andliti og höfði, auk þess sem hún nefbrotnaði, að því er segir í ákærunni.

Þá fundust 23,4 kíló af kannabisefnum í káetu sem Thomas hafði til umráða í togaranum Polar Nanoq, en hann er sagður hafa ætlað að flytja efnin til Grænlands í ágóðaskyni.

Thomas hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn um borð í Polar Nanoq þann 18.janúar síðastliðnn. Hann er frá Grænlandi og fæddur árið 1987.


Tengdar fréttir

Stúlkan sem snerti streng í brjósti íslensku þjóðarinnar

Birna Brjánsdóttir verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju klukkan 15 í dag. Óhætt er að segja að mál hennar hafi hreyft við þjóðinni en hún hvarf aðfaranótt laugardagsins 14. janúar og fannst látin í fjörunni við Selvogsvita átta dögum síðar. Lögreglan telur að henni hafi verið ráðinn bani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×