Innlent

Utanríkisráðherra á ekki von á afleiðingum eftir atkvæðagreiðslu um Jersúsalem

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, býst ekki við því að bandarísk stjórnvöld láti Íslendinga finna fyrir afleiðingum þess að hafa greitt atkvæði gegn þeim um stöðu Jerúsalem á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Aldrei hafi staðið til að láta hótanir þeirra hafa áhrif á atkvæði Íslands.

Bandarísk stjórnvöld hótuðu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna afleiðingum ef þau greiddu atkvæði gegn þeim í allsherjarþinginu í gær. Engu að síður samþykkti afgerandi meirihluti ríkjanna, þar á meðal Ísland, ályktun um að fella úr gildi allar ákvarðanir um stöðu Jerúsalem. Henni var beint að ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

„Bandaríkjamenn eru okkar vinaþjóð og hefur verið í áratugi,“ segir Guðlaugur Þór.

Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, segir að niðurstaða allsherjarþingsins sé afdráttarlaus um að Jerúsalem sé ekki höfuðborg Ísraels að mati alþjóðasamfélagsins.

Hún segir fá dæmi um eins greinilega reiði í viðbrögðum Bandaríkjamanna við niðurstöðunni. Jafnvel þegar aðildarríkin féllust ekki á innrás í Írak árið 2003 hafi viðbrögðin verið önnur en nú.

 „Við erum sjálfstæð þjóð og við höfum okkar stefnu í hinum ýmsu málum á alþjóðavettvangi. Við tökum ákvörðun um þá stefnu út frá bestu vitneskju. Það gerðum við í þessu tilfelli og við munum halda áfram að gera það,“ segir Guðlaugur Þór.


Tengdar fréttir

Íslandi ekki boðið í teiti Bandaríkjanna

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þóðunum hefur sent út boðskort þar sem fulltrúum nokkurra ríkja heims er boðið í samkvæmi snemma í janúar.

Bandaríkin munu ekki gleyma árás allsherjarþingsins

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktaði gegn ákvörðun Bandaríkjaforseta um sendiráðsflutninga til Jerúsalem. Bandaríkjamenn hóta því að skera á fjárstuðning og Ísraelar segja þingið lygasamkundu.

Ætla að skrá svikin niður

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, varaði önnur aðildarríki við því í gær að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði skipað henni að láta sig vita hverjir væru á móti því að Bandaríkin flyttu sendiráð sitt í Ísrael frá Tel Avív til Jerúsalem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×