Pétur Sigurðsson hjá On the Rocks Productions sótti um endurgreiðslu á virðisaukaskattinum en eins og Kórar Íslands þótti efnið ekki nógu menningarlegt og féll á prófinu. Eins og komið hefur fram fengu japanska kakkalakkamyndin Terra Formars, bandaríska stórmyndin The Fate of the Furious og Biggest Loser endurgreiðslu og eru kvikmyndagerðarmenn undrandi á þriggja manna nefndinni sem tekur ákvarðanirnar. Undrunin nær alla leið til Hollywood.
„Ég fékk bréf frá CBS-sjónvarpsstöðinni sem gerir Amazing Race og það er mikil óánægja með þessa ákvörðun og þetta er fljótt að spyrjast út í Hollywood þegar verkefni eru ekki að fá framgöngu. Þetta er í 30. skipti sem CBS gerir þáttaröðina og stöðin hefur aldrei lent í svona áður,“ segir Pétur.

Mér finnst skrýtið að öll þessi verkefni sem hafa fengið endurgreiðsluna eru sum með enga tengingu við Ísland eða evrópska menningu,“ bætir hann við en í skilyrðum um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð er að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin meðal annars að koma íslenskri menningu á framfæri.

„Það loðir við sjóðinn klíkuskapur og spilling. Eftir að þetta fór niður í Kvikmyndasjóð þá virðist þetta vera voðalega skrýtið hvernig öllu er hagað þarna.“
Pétur er búinn að kæra niðurstöðuna og bíður eftir lokaniðurstöðu frá iðnarráðuneytinu. „Ef það á að þrífast kvikmyndabransi hér á Íslandi þá á hann ekki að vera háður nefnd sem ræður hvaða verkefni fábrautargengi og hver ekki. Það mun drepa allan bransa að hafa nefnd sem hyglar sínum vinum.“