Fundur í kjaradeilu Flugvirkjafélags Íslands, Icelandair og Samtaka atvinnulífsins hófst klukkan fjögur í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Síðasta fundi samninganefnda deiluaðila var slitið um fjögur leytið í nótt án þess að nokkur niðurstaða fengist.
Verkfall flugvirkja hófst í gærmorgun og hefur nú haft áhrif á fjölmarga farþega Icelandair sem þurft hefur að fresta fjölmörgum flugferðum vegna verkfallsins.
Formaður Flugvirkjafélagsins hefur látið hafa eftir sér að flugvirkjar hafi dregið verulega úr kröfum sínum gagnvart viðsemjendum sínum og óttast að lög verði sett á verkfallið.
Þá sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að skoða verði heildarmyndina þegar samið verði við flugvirkja og að þeirra samningur muni hafa áhrif á aðra kjarasamninga.

