Innlent

Gert að yfirgefa landið á næstu fimmtán dögum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Chuong Le Bui er gert að fara á næstu fimmtán dögum, nema að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað.
Chuong Le Bui er gert að fara á næstu fimmtán dögum, nema að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað. Vísir/Stefán
Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest úrskurð Útlendingastofnunar um að synja víetnamskri konu, Chuong Le Bui, sem býr á Íslandi og er í matreiðslunámi, um námsmannadvalarleyfi hér á landi. Henni er gert að yfirgefa Ísland á næstu fimmtán dögum.

Ástæðan er sú að í nýjum útlendingalögum sem tóku gildi 1. janúar, er nám skilgreint sem háskólanám. Iðnnám fellur ekki undir skilgreininguna.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.vísir/vilhelm
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur þó sagt að nýju lögin krefjist lagfæringar.

„Það er ljóst eftir því sem ég hef heyrt að sú skilgreining sem kemur fram á námi er of þröng og miklu þrengri en löggjafarviljinn stóð til. Það var aldrei rætt um það að þrengja þetta þannig að iðnnámið myndi ekki falla undir nám í skilningi útlendingalaga,“ sagði Sigríður í samtali við Fréttablaðið hinn 27. október síðastliðinn.

Inga Lillý Brynjólfsdóttir, lögmaður og vinkona Chuong Le Bui, hyggst sækja um frestun réttaráhrifa og í kjölfarið höfða mál fyrir dómstólum.

Inga Lillý segir mikilvægt að leiða það til lykta hvernig skilgreina eigi nám í útlendingalögum hafi það ekki verið raunverulegur vilji löggjafans að útiloka iðnnám í útlendingalögum. Það verður hins vegar ekki gert nema með lagasetningu og lögunum verður ekki breytt fyrr en eftir að Alþingi kemur saman að nýju. Áformað er að það gerist í byrjun desember.

Chuong Le Bui kom til landsins í febrúar 2015 og hefur verið hér á landi síðan þá og er matreiðslu­nemi á Nauthóli. Hún er búin með tvö ár á námssamningi hjá veitingastaðnum af fjórum og er á fyrstu önn í matreiðslu í Menntaskólanum í Kópavogi.


Tengdar fréttir

Útlendingar í iðnnámi hafa minni rétt en nemar í háskóla

Ákveðið hefur verið að vísa víetnamskri konu úr landi eftir tveggja og hálfs árs dvöl og starf á Íslandi. Eftir breytingar á lögum nær dvalarleyfi fyrir námsmenn ekki lengur til iðnnema. Yfirmaður konunnar segir ákvörðunina fráleita.

Ekki ætlunin að undanskilja iðnnema

"Mér þykir einboðið að þetta þurfi að laga. Ég hef skoðað hvort sé hægt að laga þetta með reglugerð en sýnist að ekki verði bætt úr nema með lagabreytingu,“ segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×