Eins og vitað var eru það óvæntar stöðvanir ljósbogaofnsins í verksmiðju United Silicon í Helguvík sem veldur hinni miklu loftmengun sem stafað hefur frá verksmiðjunni að undanförnu. Þetta staðfestir rannsókn norska ráðgjafafyrirtækisins Multiconsult en jafnframt virðist búnaður ekki virka rétt. Þessi niðurstaða var kynnt á fundi stjórnar United Silicon í gær.
Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, segir það einnig hafa komið í ljós að það sé ýmislegt frá framleiðanda búnaðarins „sem virkar ekki eins og það á að virka“.
„Þeir eru að vinna að endurbótum og breytingum sem eiga að hjálpa okkur að ná stöðugleika í reksturinn,“ segir Kristleifur. „Ef við náum því að hitinn í ofninum sé ávallt nægur þá eigum við ekki að fá þessa lykt, en hún hefur komið þegar hann er á lágu álagi eða þegar slökkt er á honum.“
Umhverfisstofnun veitti fyrirtækinu frest til að gera athugasemdir vegna áforma um að stöðva reksturinn og rann hann út á miðnætti.
