Innlent

Veiðimenn fá að nota hljóðdeyfa á rifflana

Þorgeir Helgason skrifar
Riffill með hljóðdeyfi.
Riffill með hljóðdeyfi. vísir/Eyþór
„Það er okkur mikilvægt að minnka hávaðann í vopnunum sem verið er að nota, til að draga úr hættu á heyrnarskaða sem er mjög algengur fylgifiskur skotveiða,“ segir Jón Hávarður Jónsson, formaður Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum.

Nýjar reglur sem heimila veiðimönnum að nota hljóðdeyfa tóku gildi í liðinni viku. Þessi breyting er til samræmis við hliðstæðar reglugerðir á öðrum Norðurlöndum og tekur til stærri veiðiriffla.

Reglugerðin var unnin af innanríkisráðuneytinu í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórafélag Íslands, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og Umhverfisstofnun.

Lögreglustjórar veita heimild til notkunar hljóðdeyfis og er gerð krafa um að hljóðdeyfirinn sé geymdur í sérútbúnum vopnaskáp.

Samkvæmt íslenskum vopnalögum hefur hingað til ekki verið heimilt að breyta vopnum, til dæmis með því að setja hljóðdeyfi framan á byssu.

Í tilkynningu innanríkisráðuneytisins segir að með notkun hljóðdeyfa verði hávaðinn um 130 dB sem er undir sársaukamörkum og dragi því úr hættu á heyrnarskemmdum.

Gunnar Bjarnason, formaður Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis, segir félagið vera mjög ánægt með breytinguna.

„Sterkustu rökin fyrir því að leyfa hljóðdeyfa eru tengd heilsuvernd, þá einkum varðandi heyrn veiðimanna og ekki síst hjá leiðsögumönnum,“ segir Gunnar.

Formaður Skotveiðifélagsins segist jafnframt vona að nýju reglurnar muni hafa í för með sér minni skörun milli veiðimanna annars vegar og útivistarfólks hins vegar. Þá muni dýralíf verða fyrir minni truflun.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×