Enski boltinn

Phelan og Sterling bestir í ágúst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Mike Phelan, bráðabirgðastjóri Hull City, var valinn knattspyrnustjóri ágústmánaðar í ensku úrvalsdeildarinnar.

Raheem Sterling, leikmaður Manchester City, var valinn leikmaður mánaðarins og Cristhian Stuani, leikmaður Middlesbrough, fékk verðlaun fyrir að skora flottasta markið í ágúst.

Phelan tók við Hull þegar Steve Bruce sagði starfi sínu lausu rétt áður en tímabilið hófst.

Og þrátt fyrir að hafa varla keypt leikmann og langan sjúkralista vann Hull fyrstu tvo leiki sína í úrvalsdeildinni og tapaði þeim þriðja fyrir Manchester United á marki í uppbótartíma.

Sterling hefur byrjað tímabilið af miklum krafti og virðist njóta þess að spila undir stjórn Peps Guardiola, nýs knattspyrnustjóra Man City.

Sterling skoraði tvö mörk, lagði upp eitt og fiskaði vítaspyrnu í fyrstu þremur leikjum Man City í úrvalsdeildinni. Allir þrír leikirnir unnust en Man City er með fullt hús stiga í úrvalsdeildinni líkt og Manchester United og Chelsea.

Stuani skoraði flottasta mark ágústmánaðar í 0-2 sigri Boro á Sunderland í 2. umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×