Um er að ræða minnispunkta sem Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavik Media, hafði útbúið. DV greindi fyrst frá listanum. Ekki er víst að öll nöfnin sem voru á listanum séu í Panama-skjölunum, að sögn Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns Reykjavik Media.
Meðal annars birtust nöfn Finns Ingólfssonar, fyrrverandi ráðherra, Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, Eggerts Skúlasonar, ritstjóra DV, viðskiptamannsins Boga Pálssonar, Lofts Jóhannessonar, sem starfaði sem vopnasali, Sindra Sindrasonar, fyrrverandi stjórnarformanns Eimskips, og Sigþórs Sigmarssonar, stjórnarmanns í Novator.

Í svari Halldórs Kristmannssonar, talsmanns Alvogen, segir að félag Róberts Wessman, Aceway, hafi verið skráð í Panama og haldið utan um eignarhlut Róberts í Actavis. Uppsetning félagsins hafi verið samkvæmt ráðgjöf Landsbankans.
„Actavis var á þessum tíma skráð í Kauphöll Íslands og eign Róberts í gegnum áðurnefnt félag því ávallt opinber í tilkynningum til Kauphallar. Til skoðunar var á þessum tíma að skrá Actavis í erlenda kauphöll og var því talið heppilegast að Aceway væri sett upp með þessum hætti,“ segir í svari Halldórs. Róbert hafi ávallt tilkynnt eign sína í félaginu til íslenskra skattayfirvalda. Þá hafi tekjur félagsins verið skattlagðar sem launatekjur hans en ekki sem fjármagnstekjur hér á landi.
Eggert, ritstjóri DV, sagði í samtali við blaðamann DV, að hann hefði opinberað þetta í yfirlýsingu í fyrra.
„Það vekur hins vegar athygli mína að í þessu skjali er ég tengdur við félag sem ég átti ekki. Það vekur upp spurningar. Ég greiddi skatta og skyldur af tekjum og málið hefur verið fullrannsakað af þar til bærum yfirvöldum,“ sagði Eggert í DV.
Í yfirlýsingu í Eggerts í fyrra var ekki tilgreint hvort félagið væri skráð í skattaskjóli heldur talað um félög erlendis.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 8. Apríl