Innlent

Snörp orðaskipti í Bítinu um kirkjuheimsóknir barna: „Helgi er ekki nógu gamall, hann á eftir að fatta þetta“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það kom til snarpra orðaskipta á milli Helga Hrafns Gunnarssonar Pírata og Ásmundar Friðrikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um kirkjuheimsóknir barna á skólatíma í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Helgi Hrafn vill meina að um hreint og klárt trúboð sé að ræða en Ásmundur er ekki á sama máli.

„Mér finnst vera hart sótt að þessum góðu gildum, þessum góðum siðum og hefjum sem við höfum haft í kringum jólin. Frá rúmlega þúsund ára kristnitöku hefur þessi siður meira eða minna verið í gangi og það er ekki að sjá að það hafi skemmt fólk mjög mikið,“ sagði Ásmundur.

Tekist hefur verið á um kirkjuheimsóknir barna á skólatíma að undanförnu eftir að Ásmundur skrifaði færslu á Facebook þar sem hann gagnrýndi að í Reykjavík hafi verið tekið fyrir slíkar heimsóknir. Helgi Hrafn gerði athugasemd við þessi skrif Ásmundar og sagði ekki væri boðlegt fyrir kristin trúarsamtök á Íslandi að blanda sér í lögboðna grunnskólastarfsemi með trúboði.

Ásmundur Friðriksson hefur sterkar skoðanir á kirkjuheimsóknum grunnskólabarna.Vísir/Vilhelm
„Leyfðu mér að klára“

„Það er náttúrulega bara þvæla að tala um trúboð í þessu sambandi. Það er ekkert trúboð,“ sagði Ásmundur og lagði áherslu að þarna væri verið að ræða um ánægjustund sem allir hefðu gaman að. Harmaði Ásmundur það að fámennur en hávær hópur hafi tekist að koma í veg fyrir þessar heimsóknir í ákveðnum sveitarfélögum.

„Það er til dæmis þessi hópur sem tengist Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Við hittum þau fyrir ári síðan og ég hef fengið mjög harkalega pósta frá þessu fólki á fésbókinni við þessari baráttu minni,“ sagði Ásmundur.

Helgi Hrafn var þá spurður af því af hverju Píratar væru á móti því að krakkar fengu að fara í heimsóknir í kirkjur á skólatíma. 

„Þetta snýst um trúboð, þetta snýst ekki um jólaskemmtanir. Þetta snýst ekki um að fræða börn um íslenska sögu eða menningu eða gildi. Þetta er trúboð og ekkert annað,“ sagði Helgi Hrafn.

„Þetta er náttúrlega ekki trúboð,“ skaut Ásmundur inn í.

„Leyfðu mér að klára. Það sem ég var að segja var að Ásmundur sjálfur var að segja að hann vildi standa vörð um kristna trú. Er það misskilningur hjá mér,“ spurði Helgi Hrafn þá Ásmund.

„Ég vil auðvitað standa vörð um kristna trú og kristin gildi,“ svaraði Ásmundur.

„Það er ekki hægt að standa vörð um kristna trú með kirkjuheimsóknum án trúboðs. Það er bara augljóst,“ sagði Helgi Hrafn þá og sagði það af og frá að kirkjuheimsóknir barna væru forn hefð, hún væri 25-30 ára. Helgi Hrafn sagði eining að hann hefði ekkert á móti trúboði, vandamálið væri að ekki mætti stunda það á sama tíma og lögboðin grunnskólastarfsemi.

Helgi Hrafn stóð í ströngu.Vísir/GVA
„Þetta er það bara víst“

Ásmundur benti þá á að meirihluti Íslendinga væri kristinnar trúar og lítill og fámennur hópur ætti ekki að geta komið í veg fyrir að farið væri í þessar kirkjuheimsóknir og spurði hann hvort að Píratar ættu ekki bara að berjast fyrir því að málið væri tekið fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ég held að það sé í stíl við stefnu Pírata að það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla næst þegar verður kosið hvort það eigi að leyfa heimsóknir í skóla. Mér finnst það fáheyrt að Píratar sem að tala mikið um frelsi einstaklings og vilja að fólkið ráði en í trúmálum vilja þeir kæfa þessar heimsóknir fólks sem að er mikill meirihluti þjóðarinnar,“ sagði Ásmundur.

„Þarna er félagi minn að rugla saman lýðræði og frekar stækum popúlisma. Þetta snýst um trúboð í lögboðnu grunnskólastarfi, ekki bara trúboð,“ svaraði Helgi. „Þetta er lögboðið grunnskólastarf sem er fyrir okkur öll. Það er ekkert bara fyrir meirihlutinn. Það er ekki valkvætt, maður á að setja börnin sín í grunnskóla.“

„Þetta er ekki trúboð,“ skaut Ásmundur inn í.

„Þetta er það bara víst,“ svaraði Helgi.

„Nei, þú ert bara að reyna að snúa út úr til þess að koma í veg fyrir þetta,“ svaraði Ásmundur um hæl.

Spurði Helgi þá Ásmund hvernig hann ætlaði sér að fara að því að vernda kristna trú án trúboðs og reyndi þá Heimir Karlsson, annar stjórnanda þáttarins að skakka leikinn án árangurs.

„Heimsóknirnar snúast ekki um trúboð,“ endurtók Ásmundur.

„Leyfðu mér að klára. Það eru foreldrar og börn sem vilja ekki sæta þessu sem að þau skulum við segja upplifa sem trúboð,“ svaraði Helgi.

„Þau mega vera í skólanum og það er sérstök stund fyrir þau í skólanum,“ skaut Ásmundur inn í.

Þessi orð Ásmundar greip Helgi á lofti og svaraði um hæl:

„Akkúrat, það er sérstök stund fyrir þau í skólanum. Sérstök stund.“

Heimir spurði þá Helga af hverju þyrfti að leggja niður ferðirnar fyrir þá sem vildu hvort sem er fara í hana. Svaraði Helgi því til að það væri ekki boðlegt að láta foreldra standa frammi fyrir því að velja hvort að barnið væri tekið afsíðis eða látið sæta trúboði.

„Það er ekki val sem er í boði í lögboðnu grunnskólastarfi,“ sagði Helgi.

„Við getum bara ekki látið fámennan hóp koma í veg fyrir þessar heimsóknir í desember. Þetta er fallegur og góður sigur,“ sagði Ásmundur. 

Þetta greip Heimir á lofti og spurði Helga hvort minnihlutinn þyrfti ekki bara að sætta sig við það meirihlutinn væri hlynntur því að krakkar fengu að fara í heimsóknir á kirkjum á skólatíma.

„Jafnræði fyrir lögum er undirstaða lýðræðisins. Lögboðið grunnskólastarf er ekkert bara fyrir meirihlutann, það er fyrir alla í landinu. Þess vegna er það lögboðið,“ svaraði Helgi.



„Heyr heyr“

Undir lok þáttarins var Helgi einnig spurður að því hvort að eðlilegt væri að gera kröfu um að meirihlutinn breytti sinni hefðun vegna þess að minnihluti fólks væri á móti tiltekinni hegðun.

„Við eigum ekkert öll að breyta okkur. Við eigum að hætta að troða trúboði inn í skólana,“ svaraði Helgi.

Því næst var spjótunum beint að Ásmundi sem var spurður að því hvort að hann þyrfti ekki einfaldlega að áta sig á því að tímarnir væru að breytast.

„Ég átta mig alveg á því. Mér finnst bara mikilvægt að við sem samfélag og ég held að við finnum það öll þegar við eldumst að maður hugsar hver maður er, hvaðan maður kemur og hvert sé fólkið manns. Ég held að það sé ekki síður með trúnna okkur og þau gildi sem samfélagið er byggt á og reyndar bara öll Vestur-Evrópa byggir á kristnum gildum,“ svaraði Ásmundur.

Þannig að Helgi er ekki nógu gamall?

„Helgi er ekki nógu gamall. Hann á eftir að fatta þetta. Ég vona að hann sjái ljósið í enda gangsins,“ svaraði Ásmundur. Við það dæsti Helgi og sagði að rekja mætti menningu Vestur-Evrópu sem Ásmundur vísaði í til þess þegar Evrópa sagði skilið við trúarlegar kreddur.

„Þú gleymir reyndar Upplýsingunni sem snerist að miklu leyti um að fjarlægja trúarlegur kreddur úr samfélaginu. Það er aðallega þaðan sem vestræn menning hefur byggst upp síðan frá. Það er ekki allt byggt á kristninni hérna,“ sagði Helgi.

Að lokum var Helgi spurður að því hvort hann vissi dæmi um hvort að börn hefðu skaðast á því að fara í kirkjuheimsóknirnar sem um ræðir. Sagði Helgi ekki hafa orðið var við það. Ásmundur greip þá orðið á lofti. 

„Þetta eru kærleiksferðir. Við þurfum að rækta kærleikann og Píratar þurfa að átta sig á því að kærleikurinn er undirstaðan í lífinu,“ sagði Ásmundur.

„Heyr heyr,“ heyrðist þá í Helga.

Hlusta má á innslagið í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×