Innlent

Sigmundur Davíð segist ekki bera eins mikla ábyrgð á stöðunni innan Framsóknar og RÚV

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Framsóknarflokkurinn fagnar 100 ára afmæli sínu í dag með mikilli afmælishátíð í Þjóðleikhúsinu sem nú stendur yfir. Þá er afmælinu líka fagnað með veislu á Akureyri en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og fyrrverandi formaður flokksins, mætti þangað ásamt konu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, en ekki á hátíðina í Þjóðleikhúsinu.

Það er ekki ofsögum sagt að það hafi gustað um Framsóknarflokkinn á 100. afmælisárinu. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra í apríl í kjölfar Panama-lekans og í september síðastliðnum tókust hann og Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi varaformaður flokksins, um formannsembættið í flokknum. Sigurður Ingi hafði tekið við af Sigmundi Davíð sem forsætisráðherra í apríl og hann hafði betur í formannskjörinu en síðan hefur staðan í flokknum verið viðkvæm.

Vilja ýmsir meina að hann sé í raun klofinn  en í viðtali við Stöð 2 í kvöld vildi Sigurður Ingi þó ekki meina það. Sigmundur Davíð var spurður út í stöðuna í flokknum í viðtali við Sunnu Valgerðardóttur í kvöldfréttum RÚV og hvort að hann tæki einhverja á því að nú væri verið að fagna aldarafmælinu í skugga mikilla flokksátaka.

„Ekki eins mikla og Ríkisútvarpið,“ svaraði Sigmundur Davíð þá en bætti við að það væri alveg rétt að tilfinningarnar væru blendnar við aðstæður sem þessar. Því væri ekki að neita að það hefði gengið á ýmsu en aðspurður hvaða skref hann sjálfur ætlaði til að laga klofninginn í flokknum kvaðst hann ætla að leita samráðs við Ríkisútvarpið um það.

Sunna spurði Sigmund þá hvort hann ætlaði eitthvað að vinna innan flokksins en ekki bara með RÚV.

„Ja, Ríkisútvarpið kemur nú það mikið að málum inni í flokknum að það er eðlilegt að við vinnum þetta í sameiningu,“ svaraði Sigmundur þá.

Í spilaranum hér að ofan má sjá frétt Stöðvar 2 um afmælið og viðtal við Sigurð Inga Jóhannsson, formann flokksins.


Tengdar fréttir

Framsóknarflokkurinn í 100 ár

Framsóknarflokkurinn á sér mikla sögu og hann endurnýjar sig stöðugt. Hann átti erindi við þjóðina fyrir hundrað árum og hann á enn erindi við þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×