Innlent

Þrjár milljónir ADHD skammta seldir í fyrra

Sveinn Arnarsson skrifar
Nærri þrjár milljónir dagskammta af Ritalini og Concerta fóru til Íslendinga í fyrra.
Nærri þrjár milljónir dagskammta af Ritalini og Concerta fóru til Íslendinga í fyrra.
Notkun Íslendinga á metýlfenídatlyfjum hefur þrefaldast á síðustu tíu árum. Kostnaður Sjúkratrygginga vegna metýlfen­ídatlyfja nam nærri sex hundruð milljónum króna í fyrra. Ekkert lát er á komu fíkla til SÁÁ þar sem lyf af þessu tagi eru fyrsta val sprautufíkla sem leita í örvandi efni.

Ritalin og Concerta eru lang­algengustu metýlfenídatlyf á Íslandi, notuð fyrir ADHD-sjúklinga en einnig misnotuð af fíklum.

Halldór Gunnar Haraldsson, verkefnastjóri fjárhagsáætlana hjá Sjúkratryggingum Íslands, segir enga þjóð í heiminum nota metýlfenídatlyf í sama magni og Íslendingar. Árið 2006 greiddu Sjúkratryggingar Íslands með um 900 þúsund skömmtum á ári en í fyrra var sú tala komin upp í 2,9 milljónir skammta. Langstærsti hópurinn sem notar lyfin í dag er á aldrinum 20 til 39 ára.

Samanburður við Noreg og Svíþjóð
„Það er vitað að hluti efnanna fer á svartan markað, bæði til sprautufíkla sem leita í örvandi efni en einnig höfum við heyrt af háskólafólki sem notar örvandi lyfið til að vaka yfir nótt fyrir próf og þess háttar. Það er hins vegar eðli málsins samkvæmt að við vitum lítið um það þar sem þetta er á svörtum markaði,“ segir Halldór Gunnar.

SÁÁ kannaði ítarlega notkun metýlfenídatlyfja árin 2010, 2012 og 2015 og sýna niðurstöður þeirra að ekkert lát er á komu sprautufíkla í meðferð sem velja þennan lyfjaflokk fyrst til að sprauta sig með. Því er ljóst að með hluta af þeim 600 milljónum sem varið er í lyfjaflokkinn frá SÍ er braskað á svörtum markaði og endar hann hjá sprautufíklum. Einnig getur verið að sprautufíklar séu sjálfir áskrifendur að lyfjunum.

Til skýringar byggir greining ADHD á huglægu mati viðkomandi læknis, líkt og með aðrar geðraskanir. Læknir þarf að sækja um greiðsluþátttöku til Sjúkratrygginga Íslands og þar sem greining er oft býsna matskennd hefur starfsfólk Sjúkratrygginga takmarkaðar forsendur til að synja umsókn um lyfjaskírteini vegna metýlfenídatlyfja.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×