Innlent

Benedikt segir Bjarna stýra dagskránni í bili

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins, skælbrosandi á fundi í Valhöll.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins, skælbrosandi á fundi í Valhöll. vísir/eyþór
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og handhafi stjórnarmyndunarumboðs, mun leggjast undir feld um helgina og fara yfir stöðu mála í stjórnarmyndunarviðræðum áður en hann ákveður framhaldið.

Bjarni fundaði með þingflokki sínum í Valhöll í gær og fór yfir stöðuna. Í samtali við fréttastofu á leið sinni inn á fundinn sagði Bjarni að ekkert væri útilokað þegar kæmi að stjórnarmyndun. Þá sagði hann ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð ekkert líklegri kost en aðra.

„Það liggur fyrir að það væri mjög naumur meirihluti. Ég hef rætt það og bent á það, nefnt í samtölum við formenn þeirra flokka.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir að hann hafi ekki fundað með Bjarna í gær. Þó hafi þeir talað tvisvar saman í síma. Lítið hafi gerst í stjórnarmyndunarviðræðum og Bjarni hyggist taka sér helgina til þess að hugsa um framhaldið.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Fréttablaðið/Ernir
„Bjarni stjórnar dagskránni í bili. Eigum við ekki að sjá bara hvað hann segir? Hann hefur ekki boðað mig á fund,“ segir Benedikt.

„Það hefur eitthvað lítið verið talað saman í dag, ef nokkuð. Það hefur ekkert verið skipulagt meira en það sem við sögðum í gær [á fimmtudag] og Bjarni sagði eftir fundina með formönnum flokkanna,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að sú hugmynd hefði verið rædd á fundi Benedikts og Óttars með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, á miðvikudag að Benedikt myndi leiða ríkisstjórn þeirra flokka auk Sjálfstæðisflokks. Í samtali við fréttastofu í gær sögðu Óttarr og Benedikt báðir að það hefði ekki borið á góma.

Bjarni sagði hins vegar í gær að þótt töluvert bæri á milli í pólitískri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna væri hann ekki búinn að loka fyrir þann möguleika.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Bjarni segir ekkert útilokað

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur rætt við formenn nokkurra annarra stjórnmálaflokka í dag. Hann segir ekkert útilokað þegar kemur að stjórnarmyndun en ætlar að leggjast undir feld um helgina til að fara yfir stöðuna.

Benedikt verði forsætisráðherra

Rætt var á fundi Viðreisnar, VG og Bjartrar framtíðar hvort mynda mætti ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki með formann Viðreisnar sem forsætisráðherra. Viðreisn og Björt framtíð vilja starfa saman í ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×