Innlent

Ljóst að Píratar og Sjálfstæðisflokkur verða ekki saman í ríkisstjórn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Leví Gunnarsson og Bjarni Benediktsson voru í góðum gír í morgun þótt þeir hyggi ekki á frekara samstarf.
Björn Leví Gunnarsson og Bjarni Benediktsson voru í góðum gír í morgun þótt þeir hyggi ekki á frekara samstarf. Vísir/Anton Brink
Landsmenn velta nú margir hverjir fyrir sér möguleikanum á myndun næstu ríkisstjórnar. Þó nokkrir möguleikar eru í kortunum en enginn augljós. Það sem auðveldar myndina að einhverju leyti er sú staðreynd að Píratar hafa útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Sömuleiðis útilokar Sjálfstæðisflokkurinn samstarf með Pírötum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ítrekaði afstöðu flokksins í hádegisfréttatíma Stöðvar 2 þar sem hann tók undir orð Birgittu Jónsdóttur og Smára McCarthy um að flokkarnir ættu ekki samleið og myndu ekki vinna saman.

Þá liggur fyrir að Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðismenn hafa engan áhuga á að vinna með Pírötum. Raunar lítur Bjarni ekki á Pírata sem stjórnmálaflokk heldur hreyfingu sem hefur hrist upp í hlutunum.

VG og XD myndi enda illa fyrir Katrínu

Fleira hefur verið útilokað. Þannig mun Viðreisn ekki fara í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, þ.e. styðja fráfarandi ríkisstjórn við myndu nýs meirihluta. Þá hafa Píratar útilokað samstarf með Framsóknarflokknum.

Margir velta fyrir sér mögulegu samstarfi Vinstri Grænna og Sjálfstæðisflokksins enda eiga flokkarnir samleið í mikilvægum málaflokkum þótt stefna flokkanna sé gjörólík. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í hádegisfréttatíma Stöðvar 2 að viðræður um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn myndu enda illa fyrir sig.

Að neðan má sjá nokkra möguleika á meirihluta í nýrri ríkisstjórn í könnun Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×