Innlent

Bjarni sagði Guðna að hann teldi Sjálfstæðisflokkinn geta verið kjölfestuna í næstu stjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er farinn frá Bessastöðum en hann og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands funduðu í um hálftíma núna í morgun um næstu skref varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Bjarni sagði eftir fundinn að þeir hefðu átt gott spjall og uppbyggilegt í kjölfar kosniganna. Bjarni fékk ekki umboð til stjórnarmyndunar en kvaðst í samtali við fjölmiðlamenn eftir fundinn svo sem ekki hafa átt von á því. Þá sagðist hann hafa tjáð forsetanum að hann teldi að Sjálfstæðisflokkurinn gæti verið kjölfestan í nýrri ríkisstjórn.

Jafnframt sagðist Bjarni ekki telja að það ætti að vera neitt flókið eða mikið vandamál að mynda nýja ríkisstjórn eins og einhverjir vilja hafa láta í veðri vaka.

Aðspurður hvað hann myndi gera næst sagði Bjarni að hann myndi ekki gera mikið næst annað en að bíða eftir því hvað forsetinn gerði. Þá sagðist Bjarni að hann myndi eflaust ræða eitthvað frekar við formenn hinna flokkanna og að hann útilokaði ekki neitt í þeim efnum, ekki heldur Vinstri græna.

Í spilaranum hér að ofan má sjá viðtal við Bjarna áður en hann fór frá Bessastöðum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×