Innlent

Kosninga­spjall Vísis: Orð­spor Sjálf­stæðis­flokksins ekki beðið hnekki á kjör­tíma­bilinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að þrátt fyrir margvíslega ólgu á liðnu kjörtímabili hafi orðspor flokksins ekki beðið hnekki á síðustu árum. Þvert á móti hafi hróður hans aukist í kjölfar framgöngu hans í efnahagsmálum.

Þetta kom fram í máli Guðlaugs í Kosningaspjalli Vísis í dag.

Þar var hann spurður hvernig hann mæti stöðu flokksins í aðdraganda kosninganna. Margt hafi gengið á á kjörtímabilinu; tveir ráðherrar hafi sagt af sér, kosningum var flýtt í kjölfar Panamalekans þar sem nöfn tveggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins komu fyrir og þá settu langvarandi illdeilur á vinnumarkaði einnig svip sinn á kjörtímabilið.

Guðlegur telur þó að það hafi ekki sett mark sitt á orðstír Sjálfstæðisflokksins. Hann segir því í raun öfugt farið. „Það sem skiptir máli er auðvitað hvaða árangri við höfum náð og hann er óumdeildur,“ segir Guðlaugur Þór.

Í því samhengi nefnir Guðlaugur að margt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn réðst í á kjörtímabilinu „var eitthvað sem menn töldu að væri ekki hægt,“ svo sem afnám hafta, bættur hagur heimilianna, viðsnúningur í ríkisfjármálunum meðfram skattalækkunum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks eða borgarstjórnarflokkana

„Allt var þetta afgreitt út af borðinu sem eitthvað sem væri ekki hægt. Þegar þetta kjörtímabil er tekið saman þá erum við að sjá mikinn árangur á þessum sviðum.“ Ríkissjóður sé byrjaður að skila afgangi sem gefið hafi færi á niðurgreiðslum skulda ríkisins - sem og að „forgangsraða í þágu velferðarmálanna. Aðallega heilbrigðismálanna sem og lífeyrismálanna fyrir þá sem eldri eru. Þetta er mikill árangur á mjög skömmum tíma,“ segir Guðlaugur.

Hann segist ekki hafa áhyggjur af fylgi flokksins í síðustu skoðanakönnunum sem hafa gefið til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn muni tapa umtalsverðum stuðningi frá síðustu kosningnum.

„Ég treysti því þegar menn munu gera þetta upp og leggja svo fyrir sig valkostina: annars vegar ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins eða hins vegar þá flokka sem núna eru að stýra Reykjavíkurborg þá held ég að við fáum betri niðurstöðu en við sjáum nú í þessum skoðanakönnunum.“

Viðtalið við Guðlaug má sjá í heild sinni hér að ofan. Þar ber margt á góma; svo sem hvort kaldhæðni sé fólgin í áherslum Sjálfstæðisflokksins á stöðugleika, hvort ráðist skuli í aðildarviðræður að Evrópusambandinu ásamt hinum ýmsu áherslum flokksins í öðrum málaflokkum.


Tengdar fréttir

Kosningaspjall Vísis: „Við erum með bestu stefnu í heimi“

Oddný Harðardóttir formaður Samfylkingar segist ekki trúa því að stefnumál flokksins séu ástæða lítils fylgis sem hann mælist nú með í skoðanakönnunum því stefna flokksins sé sú besta í heimi. Hún hefur þó ekki skýringar á hinu litlu fylgi en þetta kom fram í viðtali við Oddnýju í Kosningaspjalli Vísis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×