Innlent

Kosningaspjall Vísis: „Við erum með bestu stefnu í heimi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Oddný Harðardóttir formaður Samfylkingarinnar segist ekki trúa því að stefnumál flokksins séu ástæða lítils fylgis sem hann mælist nú með í skoðanakönnunum því stefna flokksins sé sú besta í heimi. Hún hefur þó ekki skýringar á hinu litlu fylgi en þetta kom fram í viðtali við Oddnýju í Kosningaspjalli Vísis í dag.

„Ef ég vissi það þá myndi ég auðvitað laga það bara. Við erum auðvitað mjög áhyggjufull og værum vissulega glaðari ef að þróunin væri önnur og við værum að fara upp á við en vera ekki svona neðarlega hlutfallslega við aðra flokka. Það sem mér finnst vera alvarlegt ef við náum ekki brautargengi í þessum kosningum að rödd jafnaðarmanna heyrist ekki á Alþingi Íslendinga það væri mjög alvarlegt fyrir íslenskt samfélag,“ sagði Oddný og bætti við:

„Nú er það þannig að fyrir þessar kosningar að flestir flokkar eru með einhvern svona bút af okkar stefnu, svona bút úr jafnaðarmannastefnunni, en þeir eru bara með það fyrir kosningar. Við erum jafnaðarmenn allan ársins hring og því tel ég það mjög alvarlegt ef rödd okkar heyrist ekki sterk á Alþingi.“

Draumur Samfylkingarinnar að búa til gott velferðarsamfélag

Þá nefndi hún hin norrænu ríkin, sagði jafnaðarmenn hafa oftast verið í meirihluta þar og að þeim hefði tekist að skapa þar bestu velferðarsamfélög í  heimi.

„Okkar draumur er að við náum okkur upp úr þessari lægð og við getum tekið til við að búa til gott velferðarsamfélag,“ sagði Oddný.

Aðspurð hvað hún myndi gera ef hún sjálf næði ekki inn á þing sagðist hún myndi taka á því þegar þar að kæmi en bætti síðan við að í viðtölum í aðdraganda kosninga færi mikill tími í að reyna að útskýra þetta fylgistap og minna í að tala stefnumálin. Oddný var þá spurð hvort að það væru ekki einmitt stefnumálin sem gætu útskýrt fylgistapið.

„Við erum með bestu stefnu í heimi, ég hef enga trú á því,“ svaraði Oddný þá en viðtalið við hana í heild sinni má sjá í heild sinni bæði í spilaranum hér að neðan og efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×