Lífið

Dumbledore snýr aftur

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Aðdáendur bókanna um galdradrenginn Harry Potter hafa nú ærlega ástæðu til þess að fagna. Ekki er nóg með það að höfundur sagnanna hafi gefið út að kvikmyndin Fantastic Beasts and Where to Find Them sé einungis sú fyrsta af fimm heldur hefur hún staðfest að Dumbledore sjálfur muni birtast í framhaldsmyndunum. J.K. Rowling skrifar sjálf handritið að myndinni.

Nýja myndin gerist í sama heimi og ævintýri Harry Potter en gerist 70 árum áður og í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að Dumbledore sé ekki í nýju myndinni er minnst á hann og illa galdramanninn Grinderwald í tali. Á blaðamannafundi fyrir myndina segir Rowling að bæði Dumbledore og Grinderwald muni koma töluvert við sögu í framhaldsmyndunum.

Dumbledore og illur elskhugi hans

Rowling gaf það út fyrir nokkru að Dumbledore hefði verið samkynhneigður, en skólastjórinn lést á eftirminnilegan hátt í Harry Potter and the Half Blood Prince. Talið er að kynhneigð hans komi nokkuð við sögu í nýju myndunum en hann og Grinderwald eru sagðir hafa verið elskhugar.

Ekki er vitað hver muni fara með hlutverk hins unga Dumbledore í komandi kvikmyndum.

Disney fyrirtækið hefur nú eignast réttinn á Harry Potter heiminum og því ætti að vera óhætt að reikna með nokkrum kvikmyndum til viðbótar. Til að mynda er talið mjög líklegt að leikritið Harry Potter and the Cursed Child sem er nú sýnt í London verði kvikmyndað áður en langt um líður. Sú saga er framhald af ævintýri Harry Potter og fjallar um hann á fullorðinsárum og örlög barna hans.

Stiklu úr nýju myndinni má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×