Innlent

Vilja sameiginlegan fund með Pírötum

Sveinn Arnarsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. vísir/ernir
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sendir Pírötum þau skilaboð að ef þeir vilji samræður stjórnarandstöðu um nýja ríkisstjórn sé eðlilegast að allir flokkarnir hittist í sameiningu. Píratar ætluðu sér að ræða við hvern flokk í einu á tæplega klukkustundarlöngum fundum á morgun.

„Í sjálfu sér er ég jákvæð í garð hugmyndarinnar um að flokkar ræði saman fyrir kosningar um mögulegt samstarf að loknum kosningum,“ segir Katrín. „Hins vegar mun ég óska eftir því við Pírata að við hittumst öll í sameiningu og förum yfir málin í stað þess að flokkarnir mæti til Pírata hver í sínu lagi.“

Viðreisn, Bjartri framtíð, Samfylkingu og VG er boðið til fundar til Pírata á morgun og mun fyrsti flokkurinn mæta til Pírata klukkan tíu og svo koll af kolli.

Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, segir flokkinn auðvitað mæta til samtals. Hins vegar sé þetta nokkuð undarleg röðun.

„Píratar eru að missa fylgi í skoðanakönnunum og ætla nú að setja sig í forystusæti og stýra samtalinu á þennan hátt. Ég hefði talið eðlilegra að við mættum öll til samtals á sama tímanum og gætum ráðið ráðum okkar," segir Björt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Útspil Pírata óþörf klækjastjórnmál

Píratar hafa boðað formenn fjögurra flokka til fundar við sig um mögulegt stjórnarsamstarf og drög að stjórnarsáttmála sem kynna á tveimur dögum fyrir kosningar.

Segir Pírata opinbera sig sem vinstriflokk

Tillaga Pírata um stjórnarsamstarf á vinstrivængnum leggst misjafnlega í stjórnmálaleiðtoga flokkanna. Viðreisn er ekki spennt fyrir þátttöku og segist vilja leggja sín baráttumál á borð kjósenda ómenguð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×