Innlent

Lilja býður sig fram til varaformanns Framsóknar

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir í Háskólabíói fyrr í dag.
Lilja Alfreðsdóttir í Háskólabíói fyrr í dag. Vísir/Anton Brink
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur lýst yfir framboði til varaformanns Framsóknarflokksins. Hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lýst yfir skilyrtu framboði til varaformanns, að hún bjóði sig fram, hafi Sigurður Ingi Jóhannsson betur gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í formannsslag.

Kosning formanns Framsóknarflokksins hefst klukkan 11:30 og þegar úrslit liggja fyrir verður kosið til varaformanns og ritara.

Lilja segir í færslu sinni að Framsóknarflokkurinn standi á tímamótum við upphaf annarrar aldar í sögu flokksins, flokks sem hafi mótað samfélagið í hundrað ár og eigi enn brýnt erindi við samtímann.

„Alger viðsnúningur hefur orðið á Íslandi á síðustu árum, ekki síst vegna skýrrar sýnar og markvissrar stefnu Framsóknarflokksins. Á kjörtímabilinu hefur náðst góður árangur á flestum sviðum og þjóðarskútan er komin á réttan kjöl. Hagvöxtur er kröftugur, atvinna er næg, staða ríkissjóðs er sterk og skuldir heimilanna eru að lækka. Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í endurreisn Íslands á undanförnum árum, meðal annars í störfum mínum hjá Seðlabanka Íslands, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í vinnuhópum um Leiðréttingu og losun fjármagnshafta, sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu og nú síðast sem utanríkisráðherra.

Framundan eru mjög áhugaverðir tímar, þar sem hægt verður að hrinda í framkvæmd mikilvægum samfélagsverkefnum á grunni þess mikla árangurs sem hefur náðst.

Framsóknarflokkurinn mun halda áfram á þeirri vegferð að búa til sanngjarnt samfélag, þar sem allir hafa tækifæri til að njóta sín. Sjálf vil ég taka þátt í þeirri vegferð og þess vegna býð ég mig fram til embættis varaformanns Framsóknarflokksins. Ég heiti því að leggja mig alla fram og vinna gott starf fyrir landsmenn alla fái ég til þess umboð,“ segir Lilja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×