Innlent

„Mistök að halda prófkjör í þessum kjördæmum“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Ég held að stóra niðurstaðan úr þessu sé að það voru mistök að halda prófkjör í þessum kjördæmum,“ sagði Davíð Þorláksson, lögfræðingur og fyrrverandi formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, í kvöldfréttum Stöðvar 2 um lakan árangur kvenna í prófkjörum flokksins í Suður- og Suðvesturkjördæmi.

Niðurstöður úr prófkjörum flokksins hafa vakið mikla athygli fyrir þær sakir hversu lélega kosningu þær konur sem buðu sig fram hlutu. Karlar eru í fjórum efstu sætu flokksins í Suðvesturkjördæmi og í Suðurkjördæmi eru karlmenn í þremur efstu sætunum.

Davíð segir að finna þurfi aðra leið, þrátt fyrir að rík hefð hafi verið fyrir prófkjörum innan Sjálfstæðisflokks. „Ég held að menn verði að bregðast við þessu með einhverjum hætti. Þetta er ekki bindandi kosning. Það er bara Bjarni Benediktsson sem fékk bindandi kosningu og við getum ekki boðið upp á svona fábreytta lista eins og þarna kom fram,“ segir hann. Stilla þurfi upp fjölbreyttari lista þrátt fyrir að kjördæmisráð muni mögulega fella þá. „En menn verða að sjálfsögðu að reyna það. Við getum ekki boðið upp á svona einsleita lista.“

Stefanía Óskarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, segir það ekkert nýmæli að kynjahlutföll séu ekki jöfn á listum Sjálfstæðisflokks. Hins vegar geti frambjóðendur náð að knýja fram breytingar með því að standa saman, en að slíkt þurfi að gerast hratt.

„Þetta eru í rauninni fastir liðir en þó hefur þetta skánað á allra seinustu árum. Ég man varla eftir prófkjöri hér áður fyrr hjá Sjálfstæðisflokknum, og reyndar öðrum flokkum, sem enduðu ekki með þessari umræðu um skertan hlut kvenna á þessum listum. En það sem hefur breyst núna er að það er orðin svo víðtæk sátt um að það sé mikilvægt að hafa konur í frontinum. Það vakti athygli mína að um leið og niðurstöður lágu fyrir tók Bjarni Benediktsson þetta upp og nefndi að þetta væri sérstakt vandamál,“ segir Stefanía.

Horfa má á umræðuþáttinn í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Sjálfstæðiskonur guldu afhroð

Úrslit prófkjara Sjálfstæðisflokksins verða ræddar á fundi í dag. Formaður flokksins útilokar ekki að niðurstöðum verði breytt. Iðnaðaráðherra hættir í stjórnmálum. Þingkonur í Samfylkingu hverfa af Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×