Innlent

Börnum fjölgar á ný á Breiðdalsvík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tveggja daga byggðaráðstefnu, um hvernig eigi að fá unga fólkið til að búa á landsbyggðinni, lauk á Breiðdalsvík í gær. Þar sjá menn loks birta til eftir langvarandi lægð og telja mikilvægt að styðja við frumkvæði heimamanna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Ef Breiðdalur og Breiðdalsvík hefðu fylgt mannfjöldaþróun á landinu undanfarna áratugi ættu nú að búa þar yfir 600 manns. Þess í stað eru íbúarnir innan við 200. Hrunið varð þegar togarinn fór og kvótinn með. Afleiðingin birtist meðal annars í fækkun skólabarna. 

„Nemendur hér voru orðnir 12 í skólanum og leikskólinn með 4-5 börn. En nú er bara að birta heldur betur til,“ segir Sif Hauksdóttir, skólastjóri og verkefnisstjóri Breiðdalshrepps. Hún nefnir að fyrirtækið Ísfiskur hafi árið 2014 hafið fiskvinnslu, sem skapi 8-10 störf. Þá blómstri ferðaþjónustan með fjölgun starfa.

Frá Breiðdalsvík.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, lýsir ánægju með samstarf við Byggðastofnun um verkefnið Brothættar byggðir en á ráðstefnunni var meginspurningin hvernig ætti að fá unga fólkið til að setjast að. 

„Þetta byggist mikið upp á því að þeir sem eru héðan geti komið aftur. Það eru þeir sem eru héðan sem vilja koma aftur,“ segir oddvitinn. Lykilatriði sé að skapa fjölbreytt störf á sem flestum sviðum. 

„Að heimafólk komi að og sé stutt til þess að eiga frumkvæði. Það hefur bara gengið prýðilega,“ segir Hákon.

Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Skólastjórinn sér núna fram á enn meiri fjölgun í skólanum. 

„Unga fólkið er að skila sér aftur. Í dag eru 16 nemendur í grunnskólanum og 7 nemendur í leikskólanum. En við eigum von á fjölgun á þessu ári um 8 börn. Þannig að við erum bara verulega glöð og horfum til framtíðar,“ segir Sif Hauksdóttir.

Nemendum í grunnskólanum á Breiðdalsvík fjölgar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.