Tveir kaflar á hringveginum eru enn ómalbikaðir, báðir á Suðausturlandi, annar í botni Berufjarðar en hinn milli Skriðdals og Breiðdals um Breiðdalsheiði. Þar er lengsti malarkafli hringvegarins, 25 kílómetra langur, en malarkaflinn í Berufirði er 8 kílómetra langur.
Í vor tókst að leysa langvarandi deilur heima í héraði um hvar vegurinn eigi að liggja um Berufjarðarbotn og hafa landeigendur nú sameinast um eina veglínu sem Djúpavogshreppur hefur fallist á. Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, segir verkið inni á fjögurra ára samgönguáætlun og gert ráð fyrir fjármunum þegar á næsta ári.
„Þanng að ég sannarlega vona það að þetta skipulagsferli, sem nú er í gangi, geti gengið hnökralaust fyrir sig,“ segir Andrés. Skipulagstillagan gerir ráð fyrir að nýr vegur í Berufirði verði lagður yfir leirur innst í firðinum við Staðareyri og vonast oddvitinn til að vegagerðin hefjist á næsta ári.
„Þannig að það verði hægt að fara í útboð strax á næsta ári vegna þess að þetta er algert ófremdarástand á þessum vegarkafla enda er hann mikið ekinn.“

„Við vonum bara að Vegagerðin ráði fram úr því og þetta verði klárað á sem skemmstum tíma og mögulega hægt er. Vegna þess að þetta er algerlega óviðunandi fyrir alla að hafa veginn með þessum hætti,“ segir Andrés.
Langþráður áfangi næst þegar verkinu lýkur; unnt verður að komast hring um Ísland á samfelldu malbiki, - þó með því að fara út af hringveginum á kafla og þræða austfirsku firðina.
Það eru hins vegar engar fjárveitingar fyrirsjáanlegar til að ljúka uppbyggingu hins eiginlega hringvegar, þjóðvegar númer 1 um Breiðdalsheiði. Í tillögu að samgönguáætlun, sem innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi í vor, er aðeins gert ráð fyrir fjármunum í Berufjarðarbotn og efsta hluta Skriðdals til ársins 2019 en engu í hringveginn um Breiðdalsheiði.