Lífið

Dee sneri á dauðann og snýr aftur í Nágranna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ein vinsælasta persóna Nágranna frá upphafi snýr aftur eftir 13 ára fjarveru.
Ein vinsælasta persóna Nágranna frá upphafi snýr aftur eftir 13 ára fjarveru. Vísir
Það er þekkt stef í hinum harða heimi sápuópera að dauðinn er teygjanlegt hugtak. Það er eitthvað sem aðdáendur Nágranna munu fá að kynnast enn á ný þegar Dee Bliss, sem talin var hafa látist á vofeiflegan hátt fyrir þrettán árum, snýr aftur í þættina vinsælu.

Dee, sem leikinn er af Madeleine West, var ein vinsælasta persónan í Nágrönnum skömmu eftir aldamót og kætti það aðdáendur mjög þegar hún og Toadie, ein lífseigasta persóna þáttanna, fundu ástina og giftu sig með mikilli viðhöfn.

En óheppnin virðist elta Toadie á röndum og þegar hjónakornin voru á leið frá brúðkaupi sínu ók Toadie bíl sínum fram af hengiflugi beint út í sjó. Toadie slapp án skrámu en hvorki fannst tangur né tetur af Dee sem talin var hafa látist þrátt fyrir að líkið hafi aldrei fundist.

Atriðið þótti sláandi, líkt og sjá má snemma í myndbandinu hér að neðan. Er það gjarnan ofarlega á lista yfir hræðilegustu dauðdaga í sögu þáttanna.

Var Toadie lengi að jafna sig eftir „dauða“ sinnar heittelskuðu eiginkonu en er þó nýbúinn að gifta sig á ný, 13 árum frá brotthvarfi Dee. Óhætt er þó að fullyrða að endurkoma Dee muni reyna á hjónabandið.

Mun Madeleine West leika Dee í nokkrum þáttum sem sýndir verða ytra í desember og janúar. Hér á Íslandi eru þættirnir um hálfu ári á eftir sýningum ytra og því má búast við að íslenskir aðdáendur þáttanna verði límdir við sjónvarpið næsta sumar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, og líklega ekki í það síðasta, sem þáttastjórnendur Nágranna hafa endurlífgað vinsæla persónu. Frægasta tilvikið er líklega Harold Bishop sem hvarf í sjóinn, líkt og Dee, en sneri aftur tíu árum síðar.


Tengdar fréttir

Íslendingar fá ekki nóg af Glæstum vonum

„Þessir þættir eru einfaldlega of vinsælir hérna til að hætta sýningum á þeim,“ segir Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri dagskrársviðs Stöðvar 2, um sápuóperuna Bold and the Beautiful.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.