Innlent

Barnafjölskyldan hengir ekki út þvott vegna þjóðvegaryks

Kristján Már Unnarsson skrifar
Margir af yngri kynslóðinni hafa sennilega aldrei kynnst þjóðvegarykinu, sem pirraði menn á ferðalögum um landið fyrir tíma slitlagsins. Enn býr þó fólk við hringveginn sem getur ekki hengt þvott út á snúrur vegna þjóðvegaryks, þar á meðal níu manna fjölskylda á Austfjörðum, sem fjallað var um í fréttum Stöðvar 2.

Hringvegurinn telst vera 1332 kílómetra langur, þar af eru 97,5 prósent nú með bundnu slitlagi. Enn eru 33 kílómetrar eftir ómalbikaðir, átta kílómetrar í botni Berufjarðar og 25 kílómetrar mili Skriðdals og Breiðdals um Breiðdalsheiði.

Bæði í Breiðdal og í Berufjarðarbotni býr fólk á sveitabæjum sem enn nýtur þess vafasama heiðurs að fá yfir heimili sín þjóðvegaryk af hringveginum á þurrviðrisdögum. Þeirra á meðal fjölskyldan á Hvannabrekku í Berufirði, þau Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir og Steinþór Björnsson og börnin þeirra sjö.

Auðbjörg Elísa Stefánsdóttir og Steinþór Björnsson með yngsta barnið, Gunni Margréti.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson
„Þetta er náttúrlega bara skammarlegt, ekkert annað,“ segir Auðbjörg um ástand vegarins. Þau eru búin að bíða lengi eftir vegarbótum og segjast hlakka til þess að geta farið að hengja þvottinn út svo hann kafni ekki í ryki. 

„Og að opna glugga á sumrin, það væri ágætt,“ bætir Steinþór við. 

Já, það er mikill þvottur sem fylgir svo stóru heimili og þegar skólabíllinn rennur í hlað frá Djúpavogi sjáum við fjögur af börnum þeirra stíga út að loknum skóladegi.

Japanskur ferðamaður velti þessum bíl á malarkaflanum í Berufirði í síðustu viku.Mynd/Svavar Pétur Eysteinsson.
En það er ekkert grín að hafa þjóðvegina ómalbikaða því erlendum ferðamönnum gengur sumum illa að ráða við íslensku malarvegina, eins og þeim japanska sem velti bíl sínum í síðustu viku í Berufjarðarbotni, skammt frá heimili fjölskyldunnar barnmörgu. Deilur landeigenda um vegstæði hafa þar tafið framkvæmdir en nú vonast menn til að þær séu leystar. 

„Það er vonandi að samningar gangi í gegn í haust,“ segir Auðbjörg. 

„Það verður vonandi byrjað næsta vor,“ segir Steinþór. 

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir stefnt að því að vegagerðin fyrir Berufjarðarbotn verði boðin út strax eftir áramót.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.