Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Páll að stjórnmál hafi alla tíð verið sér hugleikin. Hingað til hafi hann þó ekki tekið þátt í þeim með beinum hætti.
„Nú finnst mér það tímabært. Það er komin fram stjórnmálahreyfing sem ég á samleið með, flokkur sem setur frjálslyndi og jafnrétti í öndvegi, flokkur sem horfir til framtíðar og getur leitt breytingar. Ég hlakka til að vinna með þeim frábæra hópi fólks sem Viðreisn hefur á að skipa,“ segir Páll.
Páll lauk doktorsprófi í heimspeki frá Cambridge háskóla, hann hefur meistaragráðu í stjórnmálafræði frá London School of Economics og BA-gráðu í heimspeki og grísku frá Háskóla Íslands. Hann hefur einnig áður starfað hjá almannatengslafyrirtækinu KOM í Reykjavík.
Páll er sonur Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjargar Þórunnar Rafnar.