Innlent

Fyrsti kvenframbjóðandi Viðreisnar kominn fram

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jóna Sólveig Elínardóttir
Jóna Sólveig Elínardóttir
Jóna Sólveig Elínardóttir aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands hefur ákveðið að bjóða sig fram fyrir Viðreisn í komandi þingkosningum. Í færslu á Facebook-síðu sinni segist Jóna Sólveig bjóða sig fram í eitt af efstu sætum flokksins í Suðurkjördæmi en hún er alin upp á bóndabæ á Sólheimahjáleigu.

Í samtali við Vísi segist Jóna Sólveig hafa tekið þátt í starfi Viðreisnar frá upphafi en hún hafi ekki tekið þátt í stjórnmálum áður. Aðspurð hvers vegna hún bjóði sig nú fram til þings segir hún:

„Ég finn að ég hef eitthvað til málanna að leggja og finnst komið nóg af því að sitja heima og rífast við sjónvarpið. Ég er frjálslynd, Viðreisn er frjálslyndur flokkur og sá flokkur sem ég finn að ég á mesta samleið með.“

Jóna Sólveig hefur tekið þátt í málefnastarfi Viðreisnar og þá situr hún í stjórn flokksins. Hún segir kosningabaráttuna leggjast vel í sig og hún sé full tilhlökkunar fyrir komandi vikur og mánuði. Jóna Sólvegi segir ýmis mál brenna á fólkinu í Suðurkjördæmi sem hún vilji setja á oddinn í komandi kosningum og ef hún nær kjöri á þing.

„Það má nefna ferðaþjónustuna, samgöngumál og svo þarf að efla heilsugæsluna.“

Jóna Sólveig er 31 árs, gift og á þrjú börn. Hún er með BA-próf í frönsku og masterspróf í alþjóðastjórnmálum, er eins og áður segir aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ en hefur um nokkurt skeið starfað við rannsóknir og verkefnastjórn hjá háskólanum. 

Í gær var greint frá því að Pawel Bartoszek, Þorsteinn Víglundsson og Gylfi Ólafsson muni bjóða sig fram fyrir Viðreisn í kosningunum sem verða í lok október. Pawel og Þorsteinn sækjast eftir efstu sætunum í Reykjavík en Gylfi sækist eftir toppsætinu í Norðvesturkjördæmi. Þá má búast við því að formaður flokksins og einn af stofnendum hans Benedikt Jóhannesson bjóði sig einnig fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×