Lífið

Fyrstu tónleikagestirnir mættir: „Búnar að bíða eftir honum í níu ár“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þórey og Ragnheiður ætla að bíða í fjórtán klukkustundir eftir átrúnaðargoði sínu. Þær ætla líka að gera það á morgun.
Þórey og Ragnheiður ætla að bíða í fjórtán klukkustundir eftir átrúnaðargoði sínu. Þær ætla líka að gera það á morgun. vísir/guðjón guðmundsson
Fyrstu gestirnir á tónleika Justins Bieber, sem haldnir verða í kvöld, eru mættir í Kórinn í Kópavogi. Það eru þær Ragnheiður Gunnarsdóttir og Þórey Gréta Sigþórsdóttir, sem segjast vart ráða sér fyrir spenningi.

„Við mættum hingað klukkan sjö og ætlum að vera hér í allan dag. Við ætlum líka að mæta klukkan sjö í fyrramálið. Við ætlum að vera fremstar, erum alveg búnar að plana þetta,“ segir Ragnheiður í samtali við Vísi. Aðspurð segir hún þær stöllur vel búnar, í tvennum buxum og þykkri úlpu. „Og Justin Bieber bol,“ segir hún.

Ragnheiður og Þórey eru sextán ára og fengu þær báðar, með leyfi foreldra, frí í skólanum í dag. Ragnheiður er í Tækniskólanum og Þórey nemur í Noregi.

vísir/guðjón guðmundsson
Eruð þið miklir aðdáendur?

„Ó já. Við erum búnar að bíða eftir honum í níu ár. Alveg síðan hann byrjaði bara,“ segir Ragnheiður.

En var ekkert erfitt að vakna í morgun?

„Jú svolítið. En maður gerir allt fyrir Justin,“ segir hún. Þó verði líklega erfiðara að vakna í fyrramálið þar sem tónleikarnir standi fram á kvöld.

Aðspurð segir Ragnheiður þær vinkonur lítið stressaðar fyrir deginum, en þær þurfa að bíða í tæpar fjórtán klukkustundir eftir að fá að sjá átrúnaðargoð sitt, sem stígur á svið í Kórnum klukkan 20.30. „Nei, við vorum smá stressaðar í morgun, en ekki lengur.“

Lokaspurning. Hvert er uppáhalds Justin Bieber-lagið þitt?

„Úff. Þetta er erfið spurning. Ætli ég segi ekki Boyfriend,“ svarar Ragnheiður, glöð í bragði.

Ella María hafði bæst í hópinn þegar ljósmyndara bar að garði um klukkan níu.vísir/vilhelm

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×