Viðskipti innlent

Röðin á Dunkin Donuts: „Ég kom í útifötunum og með útilegustól en ég þurfti svo ekkert að nota þetta“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Geir Guðjónsson stóði í ströngu að sitja fyrir á myndum í morgunsárið.
Rúnar Geir Guðjónsson stóði í ströngu að sitja fyrir á myndum í morgunsárið. Vísir/GVA
Afar fámennt var í röðinni við Dunkin' Donuts í Kringlunni í morgun en búið var að lofa fyrstu 20 viðskiptavinunum ársbirgðum af kleinuhringjum. Þegar fréttamann Vísis bar að garði voru þrír í röð.

„Ég var mættur hérna rétt fyrir sjö í morgun. Bara rétt áður en verslunarmiðstöðin opnaði, þannig við þurftum ekki að bíða úti í kuldanum,“ segir Rúnar Geir Guðjónsson, kleinuhringjaaðdáandi sem var fremstur í röðinni.

Fjölmenni var þegar fyrsti Dunkin' Donuts staðurinn opnaði við Laugaveg og fengu færri gjafabréf en vildu. Rúnar Geir komst ekki þá og ætlaði því ekki að láta þetta tækifæri renna sér úr greipum.

Komst ekki síðast?

„Nei ég var að vinna þá, sá eftir því að hafa ekki komist. Annars hefði ég mætt, þannig að ég gat ekki sleppt þessu,“ segir hann. „Ég er mikill aðdáandi og hefði ekkert á móti því að fá kassa af kleinuhringjum í heilt ár.“

En ætlarðu að gúffa sex hringjum í þig á föstudögum næsta árið? „Ætli þetta verði ekki tveir fyrir mig og svo fyrir restina af fjölskyldunni.“

„Ég bjóst við miklu fleirum. Ég kom í útifötunum og með útilegustól en ég þurfti svo ekkert að nota þetta,“ segir Rúnar Geir, frekar sáttur með að vera fyrstur, af þremur, í röðinni. 

Fljótlega upp úr níu lengdist þó röðin og voru sex í röðinni þegar þetta er skrifað klukkan 9:20. Staðurinn var opnaður klukkan 10.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.