Innlent

Sigmundur Davíð: „Svo sannarlega til í flokksþing hvenær sem er“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. vísir/ernir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist vera „svo sannarlega til í flokksþing hvenær sem er“ og leggur til að sé vilji fyrir að halda slíkt þing sé rétt að gera það sem fyrst. Óvíst sé þó hvort það henti flokknum best að eyða tíma og fjármagni í flokksþing rétt fyrir kosningar.

Sigmundur ritar færslu á Facebook þar sem hann segist hafa orðið var við umræðu um að betra sé fyrir formann flokks að hafa flokksþing eftir kosningar frekar en fyrir en boðað hefur verið til kosninga 29. október næstkomandi. Sigmundur blæs á slíkt tal.

„Augljóslega er best fyrir formann sem mæti málið einungis út frá eigin stöðu að halda flokksþing fyrir kosningar og fara í kosningabaráttu með nýendurnýjað umboð fremur en að fara í kosningar,“ segir Sigmundur Davíð. „Það á alveg sérstaklega við þegar annað forystufólk í sama flokki hefur gefið fyrirheit um að það ætli ekki að fara gegn formanninum.“

Vísar Sigmundur Davíð þar í yfirlýsingar helstu forystumannaflokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra og varaformanns flokksins, Gunnars Braga Sveinssonar atvinnuvegaráðherra og Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra sem öll hafa sagst ekki ætla að bjóða sig fram í formannsembætti flokksins komi til flokksþings.

Sigmundur Davíð er þó ekki viss um að tíma flokksins sé best varið í að halda flokksþing svo skömmu fyrir kosningar. Fyrir liggur að þrjú kjördæmisþing Framsóknarflokksins hafa óskað eftir því að flokksþing yrði haldið og því þarf, lögum flokksins samkvæmt, að halda flokksþing á næstunni.

„Það er hins vegar meira álitamál hvort það hentar flokknum að verja kröftum og fjármagni í flokksþing rétt fyrir kosningar, sérstaklega ef grunur reynist réttur um það að áhugafólk um flokksþing utan flokks hafi takmarkaðan áhuga á árangri og málefnavinnu flokksins.“

Hyggst Sigmundur Davíð tryggja að búið verði að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf svo hægt sé að halda flokksþing á þeim degi sem verði fyrir valinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.