Innlent

Hefja endurreisn Exeterhúss

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Niðurrif var kært til lögreglu og kærunni verður haldið til streitu.
Niðurrif var kært til lögreglu og kærunni verður haldið til streitu. Visir/Ernir
Byggingarleyfi fyrir frekara niðurrifi Exeterhúss við Tryggvagötu var veitt Mannverki á þriðjudag.

„Þeir klára niðurrifið og halda svo áfram framkvæmdinni og reisa húsið í gömlum stíl í umsjón Minjastofnunar Íslands,“ segir Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Exeterhúsið var rifið af Mannverki í apríl. Það var byggt árið 1904 og var friðað. Reykjavíkurborg kærði Mannverk vegna framkvæmdarinnar og kærunni verður haldið til streitu þótt framkvæmdir séu hafnar.

„Þetta er og verður lögreglumál,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, en samkvæmt hegningarlögum getur niðurrifið varðað allt að þriggja ára fangelsi eða sektum.

Ávallt mun hafa staðið til að endurbyggja bæði Tryggvagötu 10 og 12 í upprunalegri mynd en með viðbótum, kjallara og aukahæð samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

„Það er skýrt skilyrði fyrir áframhaldandi framkvæmdum að Exeterhúsið verði byggt í þessum gamla stíl sem er kallaður bindingsverksstíll. Þá læsa trébitarnir sig hver í annan, enn fremur að framkvæmdin verði gerð í samstarfi við Minjastofnun, það er ekki gott fyrir neinn að reiturinn standi lengi auður,“ segir Hjálmar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×