Fótbolti

Lennon reynir að útskýra tístið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/vilhelm/epa
Skotinn Steven Lennon, leikmaður Íslandsmeistara FH, er ekki vinsælasti maðurinn á Íslandi eftir tíst hans um íslenska landsliðið í gær.

Þegar Frakkar komust í 2-0 gegn Íslendingum í 8-liða úrslitum EM í Frakklandi í gærkvöldi tísti Lennon að loksins væri alvöru fótbolti að hafa betur á mótinu.

Þetta tíst Lennon fór afar illa í landann og margir létu Skotann heyra það, þ.á.m. Hjörvar Hafliðason og Ólafur Kristjánsson.

Lennon birti fyrir skemmstu einhvers konar útskýringu á orðum sínum á Twitter.

Þar segist hann bera mikla virðingu fyrir íslenskum fótbolta og afrekum landsliðsins á EM 2016. Lennon segir að tístið hafi ekki beinst að íslenska liðinu né leikmönnum þess.

Hann hafi einfaldlega glaðst yfir því að sjá fótbolta sem er honum að skapi og hann hefði sagt það sama hefði Ísland skorað þessi mörk snemma í leiknum. Lennon sagðist jafnframt vonast til að Skotland kæmist á HM 2018 í Rússlandi, þótt sú von væri veik.

Lennon verður væntanlega í eldlínunni þegar FH sækir Þrótt heim í 8-liða úrslitum Borgunarbikars karla í dag.

Leikurinn hefst klukkan 17:15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×