Innlent

Biskup Íslands: Kirkjan mun ekki taka stöðu gegn lögum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Það stóð ekki til og mun aldrei standa til að kirkjan vinni gegn lögum og reglu í þessu landi,“ sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í viðtali við Reykjavík síðdegis í dag.

Talsvert hefur verið rætt og ritað að undanförnu um þá ákvörðun presta að veita tveimur hælisleitendum kirkjugrið í Lauganeskirkju. Lögreglumenn komu að lokum inn í kirkjuna og fjarlægðu mennina tvo.

Meðal þeirra sem lagt hafa orð í belg eru Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, og þingmaðurinn Brynjar Níelsson. Sá síðarnefndi veltir upp þeim möguleika að haldi kirkjan áfram slíkri vegferð hvort ekki sé tímabært að aðskilja hana frá ríkinu.

„Öll sjónarmið þeirra sem talað og skrifað hafa um þetta mál eiga fullan rétt á sér. Þarna er kirkjan hins vegar að standa með þeim sem standa höllum fæti. Kirkjan vill styðja við mannúð í nafni kærleikans,“ segir Agnes.

Hugmyndin kom frá hælisleitendunum sjálfum

Biskupinn segir að þarna hafi prestarnir ætlað sér að vekja athylgi á málstað fólks sem á bágt og að ef til vill væri hægt að meðhöndla þessi málefni á annan hátt og betri.

„Það komu engin boð frá kirkjunni sjálfi sem stofnun um þetta. Þetta var sjálfstæð ákvörðun þeirra presta sem að málinu komu. Það er öllum ljóst innan kirkjunnar að við stöndum ekki gegn lögum í þessu landi og við brjótum ekki lög.“

Agnes segir að hugmyndin að þessari leið hafi komið frá hælisleitendunum sjálfum. Látið hafi verið reyna á hana í Þýskalandi og hinum Norðurlöndunum. „Það er hins vegar alveg ljóst að kirkjan er ekki felustaður. Þetta er griðastaður. Við myndum aldrei veita nokkrum grið sem brotið hefur lög eða reglur. Þetta stendur þeim til boða sem eru í neyð.“

Biskupinn sagði einnig að hafi hælisleitendur hafið umsóknarferli í öðru landi, áður en þeir komu til Íslands, þá eigi þeir ekki að eiga rétt á griðum.

Viðtalið við Agnesi í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.