Fótbolti

Formaður KSÍ: Bónusgreiðslur til leikmanna taka mið af Norðurlöndunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Geir Þorsteinsson.
Geir Þorsteinsson. vísir/stefán
Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir það nýja upplifun hjá KSÍ að fá greiðslur frá UEFA fyrir árangur sinn. KSÍ hefur fengið tæplega tvo milljarða króna í greiðslur frá UEFA samanlagt fyrir að komast á EM og svo fyrir gott gengi á mótinu.

Strákarnir okkar tryggðu KSÍ 1100 milljónir króna með því að komast á EM. Við bættust ein milljón evra, um 138 milljónir króna, fyrir jafnteflin tvö gegn Portúgal og Ungverjalandi og sömuleiðis milljón evra fyrir sigurinn gegn Austurríki. Ein og hálf milljón evra bættist í kassann fyrir að komast í 16-liða úrslitin og við bættust tvær og hálf milljón evra fyrir sigurinn á Englandi.

Grafík/Birgitta
Alls hefur árangurinn skilað KSÍ í kringum 1926 milljónum króna. Á móti kemur að íslensku félögin fá 300 milljónir króna og leikmenn liðsins sömuleiðis hluta af innkomunni. Þá er töluverður kostnaður af veru liðsins í Frakklandi en liðið tók glæsilegt hótel í Annecy á leigu í tæpan mánuð.

„Þeir bera sinn skerf frá þessu. Það er hluti af þeirra miklu vinnuframlagi,“ sagði Geir í Reykjavík Síðdegis.

Samkvæmt heimildum Vísis fengu landsliðsmenn um tvær milljónir fyrir jafnteflin hvort jafntefli gegn Portúgal annars vegar og Ungverjalandi hins vegar. Við bættust fjórar milljónir fyrir sigurinn gegn Austurríki. Þá hafa þeir sömuleiðis fengið skerf af innkomunni vegna þess að hafa komist upp úr riðlinum og sigursins gegn Englandi.

Geir segir módelið svipað og hjá Norðurlandaþjóðunum. KSÍ hafi horft þangað í samningaviðræðum sínum við leikmennina. 

Formaðurinn vonast til þess að árangur strákanna auki meðbyrin í stækkun Laugardalsvallar en Geir telur nauðsynlegt að geta boðið upp á leikvang sem tekur 20 þúsund manns í sæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×