Innlent

Fylgi við Andra og Höllu eykst

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason.
Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason. Vísir
Fylgi við Guðna Th. Jóhannesson hefur minnkað um tæp fimm prósentustig á einni viku, samkvæmt niðurstöðum könnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Bæði Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason bæta við sig fylgi.

Átta prósent myndu kjósa Andra Snæ Magnason, 10 prósent Davíð Oddsson, 35 prósent Guðna Th. Jóhannesson, 6 prósent Höllu Tómasdóttur og 2 prósent Sturlu Jónsson. Fimm prósent segjast myndu ekki kjósa eða skila auðu, 26 prósent segjast vera óákveðin en 7 prósent svara ekki.

Séu einungis skoðuð svör frá þeim sem afstöðu taka segist 13,1 prósent myndu kjósa Andra Snæ, 16,1 prósent myndi kjósa Davíð, slétt 56 prósent Guðna, 9,6 prósent Höllu og 2,9 prósent Sturlu. Aðrir frambjóðendur eru með minna fylgi.

Í könnun sem gerð var 6. júní sögðust 60,6 prósent þeirra sem afstöðu tóku að þau myndu kjósa Guðna, 17,7 prósent sögðust myndu kjósa Davíð, 10,9 prósent Andra Snæ og 7,3 prósent Höllu.

Þau Andri Snær, Guðni og Halla mælast öll með meira fylgi meðal kvenna en karla. Davíð er hins vegar langtum sterkari á meðal karla. 

Könnunin var gerð mánudagskvöldið 13. júní. Hringt var í 926 manns þar til náðist í 802 og var svarhlutfallið því 86,6 prósent. Spurt var: Ef forsetakosningar færu fram á morgun, hvern myndir þú kjósa? Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Alls tóku 62,3 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.


Tengdar fréttir

Halla mælist með meira fylgi en Andri Snær

Guðni Th. Jóhannesson mælist enn með mest fylgi meðal kjósenda en nokkrar breytingar má þó merkja í fylgiskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.