Innlent

Guðna líkt við Donald Trump í leiðara Morgunblaðsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson í húsakynnum 365 síðastliðinn sunnudag áður en þeir mættust í sjónvarpsþættinum Eyjan.
Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson í húsakynnum 365 síðastliðinn sunnudag áður en þeir mættust í sjónvarpsþættinum Eyjan. Vísir/Anton Brink
Guðna Th. Jóhannessyni forsetaframbjóðanda er líkt við Donald Trump í leiðara Morgunblaðsins í dag. Eins og venja er er leiðarinn nafnlaus en Davíð Oddsson sem einnig er í framboði til forseta Íslands er ritstjóri Morgunblaðsins. Hann er þó í sumarleyfi eins og stendur.

Í leiðaranum, sem ber yfirskriftina „Árásir á fjölmiðla,“ er það rakið hvernig það hafi reynst Donald Trump vel að ráðast á fjölmiðla í kosningabaráttu sinni en Trump verður frambjóðandi repúblikana í forsetakosningunum sem fram fara í Bandaríkjunum í nóvember næstkomandi.

„Einn af frambjóðendum til forseta í Bandaríkjunum, Donald Trump, hefur haft það fyrir sið að ráðast oft og reglulega á fjölmiðla og fjölmiðlamenn þar í landi. Þegar þeir fjalla um hann með gagnrýnum  hætti svarar hann helst ekki efnislega heludr hjólar í þá af offorsi og kallar þá ónefnum,“ segir í upphafi leiðarans.

 

Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu umdeildur Trump er, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um allan heim, en hann hefur til að mynda haldið uppi vægast sagt óvæginni umræðu í garð innflytjenda, og þá ekki síst múslima.

Segir Guðna hafa veist að Morgunblaðinu í fyrirlestri

Síðar í leiðaranum er það rakið að hér á landi hafi það ekki tíðkast í forsetakosningum að frambjóðendur veitist að fjölmiðlum en nú hafi hins vegar orðið breyting á þar sem Guðni hafi í fyrirlestri sem hann hélt í gær veist að Morgunblaðinu, eins og það er orðað í leiðaranum.

Fyrirlestur Guðna fjallaði um þorskastríðin sem hann hefur rannsakað sem sagnfræðingur en í fyrirlestrinum svaraði Guðni Staksteinum Morgunblaðsins í vikunni og furðaði sig á þögn fjölmiðilsins þegar kæmi að umfjöllun um að 40 ár eru liðin frá lokum þorskastríðanna.

Sjá einnig: Guðni um Morgunblaðið og þorskastríðin: „Öðruvísi mér áður brá“

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Í fyrirlestrinum, sem haldinn var á vegum Háskóla Íslands, tók Guðni upp á því að svara Staksteinum Morgunblaðsins og halda því fram að þar hefði hann verið hafður fyrir rangri sök. Þar var þó aðeins verið að benda á að hann hefði sagt ósatt í viðtali hjá Birni Inga Hrafnssyni þar sem hann harðneitaði því að hafa talað um að fávís lýðurinn hefði komið sér upp röngum minningum. Og hann neitaði því ekki í eitt skipti að hafa notað þessi orð, hann ítrekaði það í þrígang að það væri ósatt að hann hefði sagt þetta. Þeir sem hafa hlustað á fyrirlestur sem hann flutti fyrir þremur árum og er á vefnum vita hins vegar að hann sagði þetta.“

Rétt er að halda því til haga að í viðtali við Vísi síðastliðinn mánudag útskýrði Guðni hvað hann hefði átt við með orðum sínum um fávísan lýð, og hann gerði það einnig í fyrirlestrinum í gær.

Sagði hann að um myndlíkingu væri að ræða eins og þegar hann talaði um fræðimenn í fílabeinsturni. Hann væri ekki að tala um heimskt fólk heldur það að fræðimönnum þætti stundum almenningur tregur til að taka við nýrri söguskoðun sem sett væri fram þar sem hún er mögulega í andstöðu við sameiginlegar minningar þjóðar.

Gerir athugasemd við það að Guðni hafi talað á málþingi á vegum HÍ

Annars er haldið áfram í leiðara Morgunblaðsins:

„En það var ekki aðeins að hann færi að þrasa við Staksteina um staðreyndir sem fyrir liggja, hann kaus líka að ráðast á Morgunblaðið fyrir að hafa ekki fjallað um að fjörutíu ár eru liðin frá lokum þorskastríðanna. „Öðruvísi mér áður brá,“ sagði frambjóðandinn hneykslaður á því að um þetta hefði ekki verið fjallað.“

Í leiðaranum er síðan sagt að Morgunblaðið hafi fjallað um þessi tímamót en það sé í raun ekki aðalatriðið heldur það að „forsetaframbjóðandi skuli telja sér sæmandi að veitast með slíkum hætti að fjölmiðli.“

Þá er að því spurt hvort Guðni ætli að taka aðra fjölmiðla sömu tökum og hvort hann muni hafa sama háttinn á komist hann á Bessastaði. Að auki er gerð athugasemd við það að fyrirlesturinn hafi verið haldinn á vegum Háskóla Íslands, þar sem Guðni er dósent í sagnfræði, en í blaðinu í dag er rætt við Jón Atla Benediktsson, rektor skólans, sem segir fyrirlesturinn hafa verið á fínni línu og að starfsmenn verði að gæta hlutleysis.

Leiðara Morgunblaðsins lýkur síðan á þessum orðum:

„Það hlýtur að vera einsdæmi, rétt eins og árásir forsetaframbjóðandans á fjölmiðil, að Háskóli Íslands skuli láta blanda sér í kosningabaráttu um forsetaembættið. Háskólinn á að vera hlutlaus vettvangur til kennslu og vísindastarfa en ekki vettvangur fyrir útvalda frambjóðendur að koma sér á framfæri. Jafnvel þó að frambjóðandinn hefði haldið eigin kosningabaráttu utan við fyrirlesturinn hefði þetta verið óviðeigandi. Þegar fyrirlesturinn er hins vegar notaður – eða öllu heldur misnotaður – í þágu framboðsins, er augljóst að mikil mistök hafa verið gerð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×