Innlent

Ísfirðingur ræður ríkjum í Bolungarvík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Páll Hreinsson.
Jón Páll Hreinsson.
Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti á fundi sínum í gær að ráða Ísfirðinginn Jón Pál Hreinsson til að gegna stöðu bæjarstjóra Bolungarvíkur frá 1. júlí. Jón Páll tekur við starfinu af Elíasi Jónatanssyni sem réð sig til Orkubús Vestfjarða á dögunum þegar fráfarandi orkubússtjóri fór í námsleyfi nokkrum mánuðum fyrir starfslok.

Sjá einnig:Orkubússtjóri neitar að gefa upp í hvaða nám hann ætlar

Þetta kemur fram á heimasíðu bæjarins þar sem segir að Jón Páll sé með M.Sc. í alþjóðaviðskiptum frá Norwegian School of Management – BI og B.Sc. í markaðsfræðum frá Tækniskóla Íslands.

Þá hafi hann fjölþætta reynslu úr atvinnulífinu sem markaðsstjóri hjá framleiðslufyrirtæki og forstöðumaður hjá flutningafyrirtæki auk þess að starfa sem umboðsmaður skemmtiferðaskipa.

„Hann hefur tengst sveitarstjórnarmálum m.a. í gegnum starf sitt undanfarin ár sem ráðgjafi hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og sem framkvæmdastjóri Markaðsstofu Vestfjarða. Þar hefur hann veitt ýmiskonar ráðgjöf til fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga, aðallega á sviði rekstrar- og markaðsmála auk áætlunargerðar og stefnumótunarverkefna,“ segir í fréttinni. 

Jón Páll hefur einnig komið að fjölmörgum nýsköpunarverkefnum í störfum sínum auk þess að vera virkur í félagsmálum. Jón Páll er í sambúð með Þuríði Katrínu Vilmundardóttur, skurðhjúkrunarfræðingi og eiga þau fjögur börn og mun fjölskyldan flytja til Bolungarvíkur.


Tengdar fréttir

Leyndardómsfullt háskólanám orkubússtjóra

"Mér finnst þetta bara vera mitt prívatmál,“ segir Kristján Haraldsson sem lýkur störfum hjá Orkubúi Vestfjarða í tólf mánaða námsleyfi með yfir milljón krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×