Innlent

Ætlar að kæra framkvæmd kosninganna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Tíu forsetaframbjóðendur skiluðu inn gögnum til innanríkisráðuneytisins áður en frestur til að bjóða sig fram til forseta rann út á miðnætti. Einn þeirra sem skilaði inn gögnum, Magnús I. Jónsson, á von á því að framboð hans verði ekki gilt og ætlar að kæra framkvæmd kosninganna.

Þeir sem skiluðu inn framboðum sínum í gær voru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Magnús I. Jónsson og Sturla Jónsson.

Farið verður yfir framboðsgögnin og skoðað hvort öll gögn hafi borist frá hverjum og einum frambjóðanda. Að því loknu verður farið með gögnin til Hæstaréttar og auglýst hverjir eru rétt fram komnir frambjóðendur. Kosningarnar verða svo 25. júní næstkomandi.

Magnús I. Jónsson, einn þeirra sem skilaði inn framboði í gær, segist hafa skilað inn framboði þrátt fyrir að vera ekki með tilskilinn fjölda undirskrifta. Hann segir misvísandi upplýsingar frá yfirkjörstjórnum hafa orðið til þess að hann náði ekki að skila öllum gögnum inn. Hann hafi óskað eftir fresti til að skila inn þeim gögnum sem vantaði en ekki var orðið við því. Magnús ætlar því að kæra framkvæmd kosninganna.

„Það hefur verið brotið á mér nokkrum sinnum þarna í framkvæmdinni. Þá neyðist ég til þess að kæra þetta til Hæstaréttar úr því það var ekki hægt að verða við þessu um frest,“ segir Magnús.

Frambjóðendum sem skiluðu inn framboðsgögnum hefur verið boðið á fund í innanríkisráðuneytinu í dag og verður þá greint frá fjölda framboða. Baldur Ágústsson stefndi einnig á framboð en hann skilaði ekki inn gögnum til ráðuneytisins þar sem hann náði ekki að safna tilskildum fjölda undirskrifta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×