Á mánudagsmorgun tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, að hann hefði endurskoðað ákvörðun sína. Núna hyggst hann ekki bjóða sig fram aftur í kosningunum 25. júní. Ákvörðunina tók hann eftir að Fréttablaðið birti könnun á fimmtudaginn í síðustu viku sem sýndi að 38 prósent studdu Guðna en 45 prósent Ólaf Ragnar. Um helgina tók svo Davíð Oddsson þá ákvörðun að bjóða sig fram.

Stuðningur við efstu þrjá frambjóðendur er ólíkur milli kynja og aldurshópa. Guðni nýtur ívið meiri stuðnings meðal kvenna en karla eða 72,2 prósent á móti 65,7 prósentum. Það á einnig við um Andra Snæ sem nýtur stuðnings 13,1 prósent kvenna en 8,3 prósent karla. Davíð Oddsson nýtur hins vegar talsvert meiri stuðnings karla en kvenna, eða 18,8 prósent á móti 8,6 prósentum.
Fylgi við Guðna er nokkuð jafnt skipt milli þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára og þeirra sem eru 50 ára og eldri. Aftur á móti er fylgi Andra Snæs talsvert meira á meðal þeirra sem eru 18-49 ára en þeirra sem eru 50 ára og eldri, eða 13,8 prósent á móti 6,6 prósentum. Davíð Oddsson nýtur hins vegar meira fylgis meðal þeirra sem eru 50 ára og eldri en þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára, eða 17,2 prósentum á móti 11 prósentum.