Innlent

Segir ekki hægt að líða þau vinnubrögð sem tíðkast á Alþingi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson Vísir/Ernir
Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi, segir það vandamál að almenningur beri lítið traust til Alþingis. Hann sér þó að hægt sé að bæta úr því og telur að forsetinn geti haft þar áhrif.

„Forseti er handhafi löggjafarvalds í landinu og á að sjálfsögðu að hafa áhyggjur af því að Alþingi mælist með svona lítið traust. Hvað þurfum við að gera? Eitt sjálfsagt mál og einfalt er að breyta þingsköpum,“ sagði Guðni í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann sagði að sú breyting sem gerð hafi verið á þingsköpum árið 2009 hafi ekki reynst breyting til batnaðar.

„Umræður um fundarstjórn forseta. Kannist þið við þetta? Þetta er til í öðrum ríkjum en þetta er misnotað á Íslandi og nær hvergi annars staðar. Þess vegna horfir almenningur í landinu á þingið og hugsar „Hvað er þetta fólk að gera?“ Málþófið eins og það hefur þróast er vopn minnihlutans til þess að koma í veg fyrir að meirihlutinn fái að ráða. Svona vinnubrögð getum við ekki liðið,“ sagði Guðni.

Hann sagði að þetta væri mál sem forseti gæti beitt sér fyrir með óbeinum, og jafnvel beinum hætti.

„Hann getur reynt að breyta þessu með því að hvetja þingmenn til þess að taka sér nú tak og benda á fordæmi annars staðar. [...] Við verðum að efla traust Alþingis en það er ekkert sem við getum notað og sagt „Þess vegna þurfum við sterkan forseta.“ Forsetinn á bara að hjálpa til.“

Hlusta má á viðtalið við Guðna í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×