Innlent

Stjórmálaflokkurinn Viðreisn formlega stofnaður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá fundi á vegum Viðreisnar.
Frá fundi á vegum Viðreisnar. mynd/aðsend
Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn verður formlega settur á laggirnar þann 24. maí næstkomandi á stofnfundi sem haldinn verður í Silfurbergi í Hörpu. Á fundinum verður kosin stjórn og stefnuyfirlýsing samþykkt.

Í tilkynningu segir að Viðreisn sé „flokkur allra þeirra sem vilja að unnið sé að almannahagsmunum og gegnsæi í pólitísku starfi. Markmiðin eru réttlátt samfélag, stöðugt efnahagslíf og fjölbreytt tækifæri. Áhersla er lögð á markaðslausnir, vestræna samvinnu, frelsi, jafnrétti og jafnan atkvæðisrétt fyrir alla. Viðreisn vill einnig að þjóðin fái svo fljótt sem auðið er að greiða atkvæði um hvort ljúka skuli viðræðum um aðild að Evrópusambandinu.“

Stofnun Viðreisnar hefur verið í burðarliðnum um nokkurt skeið en fylgi við flokkinn fór í fyrsta sinn yfir 2 prósent í Þjóðarpúlsi Gallup í apríl síðastliðnum. Þá sagði Benedikt Jóhannesson, einn af forsvarsmönnum Viðreisnar, að flokkurinn væri klár í kosningar hvenær sem er, en þingkosningar verða að öllum líkindum í haust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×