Innlent

Panta pláss fyrir skemmtiferðaskip tíu ár fram í tímann

Óli Kristján Ármannson skrifar
Skemmtiferðaskipið Celebrity Eclipse er væntanlegt til Reykjavíkur á þriðjudag. Í skipinu eru meðal annars spilavíti, leikhús, kvikmyndasalur, listagallerí, bókasafn, sundlaugar og fjöldi veitingastaða.
Skemmtiferðaskipið Celebrity Eclipse er væntanlegt til Reykjavíkur á þriðjudag. Í skipinu eru meðal annars spilavíti, leikhús, kvikmyndasalur, listagallerí, bókasafn, sundlaugar og fjöldi veitingastaða. vísir/pjetur
Ein útgerð skemmtiferðaskipa hefur þegar pantað bryggjupláss í Reykjavík eftir tíu ár, samkvæmt upplýsingum frá TVG-Zimsen. Árið 2026 er því spáð að næsti sólmyrkvi verði við Ísland.

Komum skemmtiferðaskipa hingað til lands hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár, en frá því á árunum fyrir hrun hefur tvöfaldast sá fjöldi ferðamanna sem hingað kemur með skemmtiferðaskipum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum er gert ráð fyrir að aukning frá síðasta ári nemi 4,6 prósentum, fari úr 108 skipum í fyrra í 113 skipakomur í ár.

Þá gera áætlanir ráð fyrir því að farþegar með skipunum verði á þessu ári 108.900 talsins, en það er aukning um 8,7 prósent frá fyrra ári. 

„Segja má að árleg vertíð skemmtiferðaskipa sé að hefjast fyrir alvöru með komu Celebrity Eclipse,“ segir Jóhann Bogason, framkvæmdastjóri Gáru, dótturfélags TVG-Zimsen, en fyrirtækið þjónustar flest skemmtiferðaskip sem hingað koma.

Skipið er væntanlegt til Akureyrar á sunnudag, en þaðan siglir það vestur fyrir land með viðkomu á Ísafirði á mánudag. Til Reykjavíkur kemur skipið svo á þriðjudag.

Skipið er með þeim stærstu sem hingað koma, 122.000 brúttótonn alls og 300 metra langt. Með því koma 2.850 farþegar og 1.200 manna áhöfn.

Að sögn Jóhanns var skemmtiferðaskipið Magellan hins vegar fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins, en það hefur komið tvívegis til landsins í ár. „Við sjáum fram á mjög viðburðarríkt sumar,“ segir Jóhann.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×