Innlent

Yfirlýsing frá Kastljósi: Fullyrðing Júlíusar röng því hann svaraði engum spurningum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Týndir sjóðir Ingvars Helgasonar voru til umfjöllunar í Kastljóssþætti gærkvöldsins.
Týndir sjóðir Ingvars Helgasonar voru til umfjöllunar í Kastljóssþætti gærkvöldsins. Vísir/Vilhelm
Helgi Seljan, fréttamaður Kastljóss, segist engin svör hafa fengið frá Júlíusi Vífli Ingvarssyni vegna umfjöllunar Kastljóss í gærkvöldi, hvorki fyrir þátt né í kjölfar hans. Júlíus Vífill fullyrti í viðtali á Mbl.is í morgun að hann hefði leiðrétt ýmislegt í símtali sem hann átti við Helga í gær. Helgi segir það rangt í samtali við Vísi og hefur ritstjórn Kastljóss sent frá sér yfirlýsingu vegna þessara ummæla Júlíusar Vífils.

Júlíus Vífill sagði bersýnilega lítinn áhuga á því að fá nema eina bjagaða hlið á málinu. Stjórnendur Kastljóss segja þessa fulllyrðingu Júlíusar Vífils ranga enda hafi ítrekað verið reynt að fá svör frá honum í aðdraganda þáttarins, bæði símleiðis og bréfleiðis, en án árangurs.

Neðst í fréttinni má sjá spurningar Kastljóss til Júlíusar Vífils sem enn er ósvarað.

Júlíus Vífill er sakaður af systkinum sínum að hafa leynt sjóðum foreldra þeirra fyrir þeim og geymt á reikningum erlendis. Telja þau að upphæðirnar nemi fleiri hundruð milljónum króna og fullyrða að Júlíus Vífill hafi viðurkennt þetta fyrir þeim eftir að fréttist að hann hefði stofnað aflandsfélag erlendis.

Kastljós hefur margítrekað reynt að fá svör og viðbrögð Júlíusar Vífils við því sem til umfjöllunar var í þætti gærkvöldsins. Það hefur verið gert í símtölum og með tölvupósti. Júlíusi voru sendar ítarlegar spurningar í kjölfar símtals hans og fréttamanns. Þar voru borin undir hann efnisatriði umfjöllunar Kastljóss í öllum meginatriðum, greint frá þeim gögnum sem Kastljós hafði aflað, borin undir hann frásögn systkina hans og óskað viðbragða. Þrátt fyrir ítrekanir í tölvupósti og mörg símtöl, neitaði hann að svara nokkru af þeim spurningum eða bregðast við þeim efnisatriðum sem undir hann voru borin,“ segir í yfirlýsingu frá Kastljósi vegna málsins.

Ekki sé rétt að Júlíus hafi leiðrétt nokkuð eða svarað spurningum í símtalinu við Helga í gær.

„Hann kaus þvert á móti að svara engum spurningum. Eins og sjá má á meðfylgjandi afriti tölvubréfs sem sent var Júlíusi að beiðni hans, voru þessar spurningar mjög skýrar og engan veginn málum blandið um hvað málið snerist. Júlíusi var að sama skapi boðið að svara skriflega, kysi hann það, en það þáði hann ekki heldur.“

Vísir/Páll Bergmann
Tölvupóstur Helga Seljan til Júlíusar á mánudaginn

From: Helgi Seljan 

Sent: mánudagur, 16. maí 2016 15:03

To: 'Julius Ingvarsson'

Cc: Þóra Arnórsdóttir

Subject: Vegna umfjöllunar Kastljóss

Sæll Júlíus,

Eins og ég ræddi við þig áðan er mikilvægt að fá frá þér svör og skýringar þínar eftir atvikum á þeim atriðum sem ég nefndi við þig í síðasta lagi um klukkan 14 á morgun, þriðjudag. Meðfylgjandi eru spurningar sem ég ræddi við þig í símtalinu.

Það væri fínt að fá að heyra frá þér sem fyrst í framhaldinu varðandi það með hvaða hætti þú vilt svara þessu. Þá hvort þú veitir viðtal eða kjósir að gera það með öðrum hætti.

Samkvæmt frásögn systkina þinna og systursonar munt þú hafa viðurkennt fyrir þeim í símtölum eftir umfjöllun fjölmiðla um félag þitt Silwood og bankareikninga þess, að þar væri um að ræða fé sem upprunið væri í þeim sjóðum sem faðir þinn og móðir áttu erlendis, og leitað hefur verið að.

- Getur þú staðfest þetta? Ef ekki hvað er rangt í þessari frásögn þeirra?

- Hefurðu boðist til að greiða fjármunina inn í dánarbúið? 

- Um hversu mikið fé er að ræða? 

- Hvers vegna voru sjóðir föður þíns og móður í þinni vörslu? 

- Hvers vegna hafðirðu ekki gert fjölskyldunni grein fyrir þessu fyrr?

Samkvæmt gögnum sem varða stofnun félagsins Silwood á Panama og uppsetningu þess, barst tæplega 2000 dollara greiðsla vegna stofnunar Silwood til Mossack Fonseca frá útibúi UBS bankans á Jersey, samkvæmt þinni beiðni og af þínum reikningi.

- Geturðu staðfest þessar upplýsingar? Er eitthvað rangt í þeim og þá hvað?

- Hver var tilgangur þessa reiknings á Jersey?

- Höfðu sjóðir foreldra þinna eða föður verið á sama stað?

- Voru fjármunir úr sjóðum foreldra þinna á reikningnum á Jersey áður en þú stofnaðir reikninginn í Panama?

- Hvers vegna þurftirðu að leita til Mossack Fonseca um stofnun félags í Panama til þess að stofna „Trust“ eða sjóð, þegar nákvæmlega samskonar þjónusta er í boði hjá UBS á Jersey?

Samkvæmt gögnum sem varða félagið Lindos Alliance var félagið stofnað á Tortóla í október 2001. Sama félag keypti stuttu síðar tæplega 20% hlut í tveimur íslenskum félögum, Ingvari Helgasyni og Bílheimum, fyrir nokkur hundruð milljónir króna. Samkvæmt fundargerðum og skjölum sem varða hlutafjárkaup Lindos Alliance í fyrirtækjunum íslensku, kynntir þú fjárfestingu Lindos fyrir hluthöfum í íslensku félögunum tveimur, og hafðir umboð til þess að skrifa undir skjöl og fara með hlut þess hér á landi, meðal annars kaupsamninga þegar félagið var selt árið 2004.

- Hver var eigandi Lindos Allliance?

- Hvers vegna var félagið sagt í Lúxemborg þegar fyrir liggur að það var stofnað og skrásett á eynni Tortóla?

- Hvaðan komu fjármunirnir sem Lindos Alliance notaði til viðskiptanna?

- Þegar Lindos Alliance og aðrir hluthafar í IH og Bílheimum seldu hluti sína til nýrra eigenda árið 2004 átti Lindos Alliance kröfu á íslensku félögin fyrir hátt í 100 milljónir króna. Hvernig var þessi krafa Lindos Alliance tilkominn? 

- Samkvæmt frásögnum þeirra sem tóku við rekstrinum eftir að fyrirtækið fór úr höndunum fjölskyldunnar árið 2004, var lögð rík áhersla á að þessi krafa Lindos Alliance yrði greitt að fullu og gerð upp áður en gengið yrði frá sölunni; jafnvel þó fyrir lægi að aðrir kröfuhafar félaganna ættu ekki kost á að fá kröfur sínar uppgerðar að fullu eða á þeim tímapunkti? Hver er skýringin á þessu?

Systkini þín segjast hafa fengið veður af því nokkru eftir að fyrirtæki fjölskyldunnar voru seld árið 2004, að stuttu eftir andlát föður ykkar árið 1999 hafi kauptilboði fyrir margfalt hærri upphæð en félagið var að lokum selt á, verið hafnað í fyrirtækið (talan 3 milljarðar króna var nefnd í þessu sambandi) Að þetta tilboð hafi ekki verið borið undir stjórn eða aðra hluthafa, heldur hafið þið Guðmundur Ágúst og Helgi Ingvarssynir hafnaði tilboðinu?

- Geturðu staðfest þessa frásögn? Er hún röng? Að hvaða leyti?

Annað sem þú vilt koma á framfæri.

Með kveðju

Helgi Seljan


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.