Innlent

25 þúsund krefjast afsagnar Sigmundar Davíðs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Vísir/Ernir
25 þúsund manns hafa nú skrifað undir í undirskriftasöfnun á netinu þar sem þess er krafist að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér sem forsætisráðherra og þingmaður vegna Wintris-málsins.

Undirskriftasöfnunin var sett af stað þann 27. mars. Í lýsingu undirskriftarsöfnunarinnar segir að Sigmundur Davíð hafi gerst sekur um alvarlegan siðferðisbrest vegna aflandsfélags eiginkonu sinnar, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, Wintris.

Þá hafa rétt tæplega tíu þúsund manns boðað komu sína á mótmæli á Austurvelli klukkan 17 í dag undir yfirskriftinni Kosningar strax!

Sjá einnig: Bein útsending frá Alþingi: Forsætisráðherra krafinn svara

Þing kemur saman á ný í dag eftir páskahlé klukkan 15 og á forsætisráðherra að sitja fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma.

Stjórnarandstaðan mun leggja í dag fram vantrauststillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og ríkisstjórn hans ásamt tillögu um þingrof og kosningar. Sigmundur Davíð segist ekki hafa íhugað afsögn og óttast ekki fyrirhuguð mótmæli. Hann verði dæmdur af verkum sínum í næstu kosningum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×