Innlent

Mun færri samankomnir á Austurvelli en í gær

Bjarki Ármannsson skrifar
Ljóst er að mótmælin í kvöld verða mun umfangsminni en í gærkvöldi.
Ljóst er að mótmælin í kvöld verða mun umfangsminni en í gærkvöldi. Vísir/Ernir
„Þetta er ekkert í líkingu við það sem var í gær,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um mótmælin sem hófust á Austurvelli nú klukkan fimm. Að hans mati eru um 300 til 500 manns samankomnir fyrir framan Alþingishúsið en enn einhverjir að mæta.

„Það er byrjað að koma eitthvað af eggjum, bönunum og öðrum matvælum hingað yfir girðinguna,“ segir hann. „En við erum alveg með nægan mannskap til að eiga við þetta eins og í gær.“

Austurvöllur gott sem troðfylltist í gær af mótmælendum sem kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar. Töldu skipuleggjendur að rúmlega tuttugu þúsund manns hefðu látið sjá sig. Ljóst er að mótmælin í kvöld verða mun umfangsminni, mögulega vegna þeirra tíðinda að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sagt af sér embætti forsætisráðherra.

Blaðamenn fréttastofu á staðnum telja að rúmlega þúsund manns séu samankomnir á Austurvelli. Að þeirra sögn er ekki síður hávaði í hópnum en í gær, auk þess sem mótmælendur komast nú nær Alþingishúsinu þar sem ekkert svið hefur verið sett upp.

„Oft er það ekkert fjöldinn sem skiptir máli,“ segir Ásgeir, aðspurður hvort hann telji að lögreglu bíði auðveldara verkefni en í gærkvöldi. „Það var til dæmis ekkert erfitt í gær, fólkið var upp til hópa yndislegt. Það fer meira eftir samsetningunni en fjöldanum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×