Innlent

Vantrauststillögunni haldið til streitu: Byggjum ekki upp traust með svona bixi

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Vísir
Stjórnarandstaðan mun halda til streitu vantrauststillögu sinni sem liggur fyrir Alþingi. Það gerir hún þrátt fyrir þá ákvörðun Framsóknarflokksins að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stigi til hliðar sem forsætisráðherra og þá tillögu að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, taki við embættinu af Sigmundi Davíð.

Sigmundur Davíð mun áfram gegna formennsku í Framsóknarflokknum að því er fram kom í máli Sigurður Inga eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist telja íslenskt samfélag krefjast þess að traust verði byggt upp og stjórnarandstaðan standi fyrir breyttum starfsháttum í stjórnmálum. „Það gerum við ekki með svona bixi,“ segir hún um fléttu Framsóknarflokksins.

„Við erum búin að horfa upp á atburðarás í dag þar sem forsætisráðherra sagði klukkan níu í morgun að ríkisstjórnarsamstarfið stæði styrkum fótum og væri ekki á bláþræði. Klukkan tólf er hann að krefjast kosninga og þingrofs. Klukkan þrjú er hann að afhenda varaformanni sínum forsætisráðherraembættið. Þetta er ótrúleg atburðarás og ekki til þess fallið að auka traust á að ríkisstjórnin að hún valdi sínu vandasama verkefni,“ segir Katrín í samtali við Vísi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×