Innlent

Veit ekki hvað rætt verður á fundinum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis, rétt áður en hann gekk á fund forseta Íslands.
Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis, rétt áður en hann gekk á fund forseta Íslands. Vísir/anton
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist ekki vita hvert tilefni fundarins með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, væri, né hvað yrði rætt á fundinum. Það sagði hann í samtali við fréttamenn skömmu áður en hann gekk inn á fund sinn með Ólafi Ragnari á Bessastöðum á fimmta tímanum í dag.

Aðspurður um þá stöðu sem upp sé komin sagðist hann ekki geta svarað því að svo stöddu. Málin séu fljót að breytast og að fyrst þurfi hann að fara yfir málin með forsetanum.  „Fæst orð bera minnsta ábyrgð," sagði Einar.

Einar mætti á fundinn skömmu eftir að fundi forsetans með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra lauk. Á þeim fundi greindi Bjarni Ólafi Ragnari frá því að fyrir dyrum stæðu viðræður við Framsóknarflokkinn um áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Þá fór Bjarni fram á það við Ólaf að fá svigrúm til þeirra viðræðna og þar yrði ákveðið hvernig næsta ríkisstjórn yrði saman sett.

Aðspurður hvort einhverjar líkur væru á að hann myndi taka við embætti forsætisráðherra sagðist hann ekki ætla að svara því, enda sé það mál enn órætt.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.