Innlent

„Pírati gæti vissulega orðið næsti forsætisráðherrann“

Bjarki Ármannsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir segist ekki hafa hugsað það til enda hvort hún gæti orðið næsti forsætisráðherra landsins.
Birgitta Jónsdóttir segist ekki hafa hugsað það til enda hvort hún gæti orðið næsti forsætisráðherra landsins.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist ekki hafa hugsað það til enda hvort hún gæti orðið næsti forsætisráðherra Íslands. Þetta kom fram í viðtali hennar við fréttavefinn Democracy Now í beinni útsendingu nú fyrir stuttu.

Líkt og kemur fram í nýrri könnun fréttastofu 365, mælast Píratar nú með 43 prósenta fylgi á sama tíma og stjórnarandstaðan vill rjúfa þing og boða til kosninga.

Birgitta sagði í viðtalinu að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherraefni Framsóknarflokksins, sé alls ekki það sem íslenska þjóðin hafi kallað eftir. Afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í kjölfar leka á Panama-gögnunum svokölluðum sé ekki nóg.

„Ísland er, því miður, eina landið í vestur-Evrópu með sitjandi ráðherra sem voru nefndir í þessum leka,“ segir Birgitta. „Augljóslega vill fólk að ráðherra skattamála, sem átti einnig aflandsfélag, víki. Fólk er ennþá ósátt og það verða væntanlega áfram mótmæli þar til þau víkja.“

Hún segir mótmælin á mánudagskvöld síðastliðið, mögulega þau fjölmennstu frá upphafi á Íslandi, einstök þar sem erfitt sé að fá Íslendinga til að koma út og mótmæla nema lífsviðurværi þeirra liggi við. Hún segir reiði hafa kraumað í þjóðfélaginu lengi gagnvart sitjandi ríkisstjórn.

Aðspurð hvort hún gæti sjálf orðið næsti forsætisráðherra landsins, þar sem flokkur hennar mælist nú með langmest fylgi, sagði Birgitta:

„Við höfum ekki hugsað það svo langt. Pírati gæti vissulega orðið næsti forsætisráðherrann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×