Lífið

Friðrik Dór frumflytur nýtt lag í Ísland Got Talent: „Meira stuð og meira dansgólf í þessu lagi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Friðrik Dór verður í beinni í þriðja og síðasta undanúrslitaþætti Ísland Got Talent í kvöld.
Friðrik Dór verður í beinni í þriðja og síðasta undanúrslitaþætti Ísland Got Talent í kvöld. Vísir/Ernir
Friðrik Dór verður að eigin sögn í „öskrandi gír“ í þriðja og síðasta undanúrslitaþætti Ísland got Talent á Stöð 2 í kvöld þar sem hann mun frumflytja brot úr nýju lagi sínu sem kemur út síðar í vikunni.

Hefur söngvarinn góðkunni ekki gefið út lag frá því að Skál fyrir þér sló í gegn á síðasti ári. Þar fengu landsmenn að heyra Friðrik Dór í ballöðugírnum en að sögn Friðriks Dórs er nýja lagið af öðrum toga.

„Það er meira stuð og aðeins meira dansgólf í þessu lagi,“ segir Friðrik Dór. „Ég er búinn að gera tvær ballöður í röð þannig að það verður gaman að komast á dansgólfið aftur.“

Lagið er sem endranær samið með félögum og samverkamönnum Friðriks Dórs, upptökuteyminu Stop Wait Go en það mynda Ásgeir Orri Ásgeirsson, Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að frumflytja þetta lag í beinni í Ísland got Talent,“ segir Friðrik Dór sem vill ekki gefa upp hvað lagið heitir en lofar góðu stuði.

Þriðji og síðasti undanúrslitaþáttur Ísland Got Talent verður í beinni útsendingu á Stöð 2 í kvöld klukkan 19:35.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×